Sagði stækkun NATO hafa leitt til styrjaldar

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, var gestur í Silfrinu í …
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, var gestur í Silfrinu í dag.

„Henry Kissenger skrifaði fyrir átta árum grein þar sem hann lagði til að Bandaríkin, ESB og Rússland gerðu þríhliða samkomulag til 20-30 ára um að styðja Úkraínu og byggja upp það samfélag án þess að fara spila geópólítíska leiki, og ef að það yrði ekki gert, sagði Kissenger fyrir átta árum, þá myndi það leiða til styrjaldar og ófarnaðar.“

„Kannski ættum við að líta á nýjan hátt á þessar kenningar sem urðu ekki ofan á, því sú lína sem varð ofan á var; stækkum NATO, tökum fleiri lönd inn og niðurstaðan af því er þetta hræðilega stríð.“

Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, í Silfrinu í dag, þar sem rætt var um innrásina í Úkraínu.

Egill Helgason, stjórnandi þáttarins, spurði þá:

„Myndirðu segja beinlínis, að það að þessi lönd gengu í NATO, sé beinlínis ástæðan fyrir stríðinu?“

„Nei, ég er ekki að segja að það sé ástæðan, en við verðum að hafa, um leið og við gagnrýnum Rússa miskunnarlaust fyrir þessa styrjöld og hvernig er farið er með fólkið, þá verðum við líka að hafa intellekt, heiðarleika og kjark til þess að horfast í augu við það að, til dæmis viðskiptaþvinganirnar sem við settum á eftir Krímskagann, þær hafa engum árangri skilað,“ svaraði Ólafur.

„Það að stækka NATO og stækka NATO hefur leitt til mestu styrjaldar í Evrópu, það hefur alla vega ekki komið í veg fyrir það, og svo höfum við talið okkur sjálf trú um það að Rússland væri svo veikt efnahagslega.“

Kom honum á óvart

Aðspurður sagði Ólafur að innrás Rússa hefði komið honum á óvart og þá sérstaklega með þeim hætti sem þeir hafa gert, en hann hafi aftur á móti búist við því að Rússar myndu reyna að styrkja sjálfstjórnarsvæðin. 

„Það kom mér á óvart að þetta myndi gerast með þessum hætti og ég held að það hafi nánast komið öllum okkar á Vesturlöndum á óvart,“ sagði Ólafur og hélt áfram:

„Vegna þess að þetta er í raun og veru ákveðinn ósigur, má segja, þessi atburðarás, fyrir ríkjandi viðhorf okkar í Evrópu og Bandaríkjunum um hvernig ætti að koma fram við Rússland.“

Þurfum að finna leiðir

„Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá búum við í ljótri veröld. Við búum í veröld þar sem ríki eru með hagsmuni og þar sem að valdhafar geta verið vondir og grimmir og svo framvegis,“ sagði forsetinn fyrrverandi.

„Alveg eins og á tímum Kalda stríðsins, þegar ógnarjafnvægið kom í veg fyrir styrjaldir, þá þurfum við að finna leiðir og aðferðir sem búa til þannig aðhald að það leiði ekki til þessa hörmunga sem við erum að upplifa núna.

Það sem ég er í raun og veru að segja núna; eigum við ekki að opna umræðuna á einhverjar nýjar aðferðir til að geta haldið honum í skefjum,“ sagði hann og vísaði þar til Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.

Sprengjuárásir Rússa hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu.
Sprengjuárásir Rússa hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu. AFP

Ekki raunhæft að einangra Rússa

Ólafur gagnrýndi Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið fyrir að gefa úkraínsku þjóðinni fyrirheit um aðild að samböndunum sem ráðamenn í Evrópu ætluðu sér síðan ekki að efna.

„Það er merkilegt, þó það hafi ekki mikið farið fyrir því í umræðunum síðustu daga, að nú er forseti Úkraínu farinn að í raun og veru gagnrýna Þýskaland og Bandaríkin harðlega fyrir að standa ekki við þessar væntingar.“

Hann sagði það einnig ekki raunhæft að Evrópa og Bandaríkin hafi náð að einangra Rússa með viðskiptaþvingunum, þar sem Indland, Kína og Pakistan væru að auka viðskipti sín við Rússland.

Þessi átök snúist um olíu, gas og málma, að sögn Ólafs, hvort sem okkur líki það betur eða verr.

Viðskiptaþvinganir ekki haft nokkur áhrif

„Ef þú bakkar aftur í Krímskagadeiluna, farðu í umræðuna þá, þegar við fórnuðum milljörðum í útflutningstekjum. Við héldum að það myndi hafa áhrif, það hafði bara ekki nokkur áhrif. Það var meira til að réttlæta okkur sjálf,“ sagði Ólafur.

„Áhrifin á rússneska hagkerfið af þeim viðskiptaþvingunum sem við í Evrópu og Bandaríkjunum hafa komið sér saman um skipta kannski miklu minna máli en við höldum. Þannig ef við ætlum að þvinga Rússana inn í einhverja atburðarás, þá verðum við að nota einhver tæki sem bíta.“

Þegar Ólafur var spurður hvernig ætti að stilla til friðar, sagði hann að Vesturlönd standi frammi fyrir tveimur valkostum.

„Eigum við að reyna að stuðla að því að það verði vopnahlé, að það verði samningur, eða eigum við að halda áfram að reyna að þrýsta á Rússana og nota þetta í ákveðnu áróðursskyni?“

Hafa aldrei kynnst lýðræði

Ólafur telur að það sé mikilvægt að nálgast Rússa af raunsæi í staðinn fyrir að loka þá af og reyna að semja við þá frekar. Um sé að ræða stærsta land í heimi, sem búi þar að auki yfir kjarnavopnum.

Ólafur bendir á Rússar hafi aldrei kynnst lýðræði og það væri hugsunarháttur sem myndi ekki breytast á stuttum tíma.

„[Rússland] hefur aldrei kynnst lýðræði, aldrei kynnst mannréttindum, aldrei kynnst réttarríki, aldrei kynnst frjálsum markaði. Það mun taka að minnsta kosti fimmtíu ár að fara með slíkar breytingar í gegnum Rússland og vandamál okkar er að [Rússland] skemmi ekki aðrar þjóðar meðan það er að glíma við þessi vandamál heima fyrir,“ sagði hann og hélt áfram:

„Við höfum viljað halda þannig á málum að segja, þið skuluð bara strax verða lýðræðisríki, réttarríki, frjáls markaður, og verða eins og stór Svíþjóð, á miklu skemmri tíma en það hefur tekið fyrir nokkrar aðrar þjóðir.“

Pútín fagnaði því á dögunum að átta ár væru liðin …
Pútín fagnaði því á dögunum að átta ár væru liðin frá innlimun Krímskaga. AFP

Pútín ekki bilaður 

Aðspurður sagði Ólafur að viðhorf hans á Pútín hefði ekki breyst eftir innrásina og í öllum sínum samskiptum við hann hafi hann alltaf virst vera „fullkomlega rasjónal“ og skynsamur.

„Hann hefur á öllum þessum fundum sem ég hef átt við hann verið tiltölulega hógvær, tiltölulega skynsamur, hlustað á öll rök, aldrei reynt að ýta mér eða Íslandi í einhverja óþægilega stöðu og ég hef nú rætt við marga forystumenn í veröldinni,“ sagði hann.

„Hann kom mér ekki fyrir sjónir sem einhver kolruglaður öfgamaður eða fantur. En hann er náttúrlega í landi sem hefur engar lýðræðishefðir.“

Ólafur telur að hugsunarháttur Rússa hafi breyst fyrir fimm, sex árum í svokallaðan „bunker mentality“, eða skotbyrgishugarfar.

Stríðið minnkað þörf á herafli á Íslandi

Pútín hafi ekki bilast og það sé ekkert sem gefi það til kynna.

„Það er miklu líklegra að við náum árangri með því að horfa á hann þannig heldur en að segja „hann er bara klikkaður“.“

Ólafur telur að ágreiningurinn um aðild Íslands að NATO muni að mestu leyti hverfa í kjölfar átakana. Hann bendir á að það sé ekkert í þessari atburðarás sem kalli á aukinn herafla á Íslandi.

Einnig benti hann á það að nær allur herafli Rússa sé í suðurhluta landsins og það verði langt þangað til að þeir geti farið að byggja upp ógn í norðrinu.

„Þess vegna væri hægt að segja að minnsta kosti sem tilgátu, þótt það hljómi sérkennilega, að þessi atburðarás hafi minnkað þörfina á því að búa til hernaðarlega viðveru á Íslandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert