Móðirin og vitorðsmenn kærð í Noregi

Norskir lögreglumenn á gangi.
Norskir lögreglumenn á gangi. mbl.is/Atli Steinn

Norskur lögmaður föður drengjanna þriggja sem íslensk móðir þeirra nam á brott og flutti með einkaflugvél til Íslands hefur lagt fram kæru á hendur móðurinni og þeim sem voru í vitorði með henni.

Þetta segir lögmaðurinn Leifur Runólfsson, sem fer með mál mannsins hér á landi. Hann hefur sent lögmanni móðurinnar póst þar sem hann krefst þess að hún skili börnunum.

Spurður segist Leifur ekki vita hve margir voru í vitorði með móðurinni en segir ljóst að hún hafi hvorki getað skipulagt né fjármagnað flutning drengjanna til Íslands.

Konan hlaut skilorðsbundinn dóm í Noregi árið 2020 eftir að hún fór með börnin til Íslands, með leyfi barnsföðurins, en neitaði að skila þeim til baka.

Kæra hefur verið lögð fram í Noregi.
Kæra hefur verið lögð fram í Noregi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Leifur segir það ekki rétt sem komið hefur fram um að Norðmenn reyni að halda börnum þar í landi. Ákvörðun dómstóls um að konan megi aðeins hitta börnin í fjórar klukkustundir í senn, fjórum sinnum á ári, hafi verið tekin að vandlega athuguðu máli.

Spurður út í næstu skref kveðst hann vilja trúa því að móðirin fái réttar ráðleggingar um að skila börnunum.

Höfðu ekki hist í þrjú ár

Lögmaður móðurinnar, sem vill ekki láta nafns síns getið, gagnrýnir stöðu mannréttindamála í Noregi og segir ekki horft á hagsmuni barna þegar kemur að forræðismálum.

Eins og áður sagði fær konan samkvæmt norskum dómsúrskurði að hitta drengina fjóra klukkustundir í senn, fjórum sinnum á ári undir, eftirliti þar sem tala skal norsku. Tvær alsystur drengjanna sem búa hjá móður sinni á Íslandi höfðu ekki hitt þá í þrjú ár þangað til móðirin nam þá á brott og flutti til Íslands.

Mannréttindadómstóll Evrópu.
Mannréttindadómstóll Evrópu. Ljós­mynd/​ECHR

Málið fór fyrir MDE 

Lögmaðurinn segir konuna hafa farið með forræðismálið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) en þar hafi því verið vísað frá sökum þess að hún hafði ekki áfrýjað norska dóminum til Hæstaréttar þar í landi.

Þessi í stað valdi hún að höfða forsjármál vegna dætranna tveggja hjá norskum dómstóli og vann það, að sögn lögmannsins. Þær eru því með lögheimili á Íslandi en forsjáin er engu að síður sameiginleg. 

Vakni til vitundar

Lögmaðurinn vísar í 8. grein Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem talað er um réttinn til friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis. Hún kveðst vona að íslensk stjórnvöld vakni til vitundar í þessum málaflokki og bendir á heimild í lögum um að synja afhendingu barna vegna mannréttindabrota.

Norska lögreglan hringdi í móðurina í gærmorgun, sem sagði börnin vera hjá sér og að öllum líði vel. Spurð segir lögmaðurinn lögregluna ekki geta náð einfaldlega í börnin aftur og farið með til Noregs heldur sé löglega leiðin sú að krefjast innsetningarmáls um að fá börnin afhent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert