ELKO tókst að láta viðskiptavini hlaupa

Skjáskot af vefsíðu ELKO.
Skjáskot af vefsíðu ELKO. Ljósmynd/Aðsend

Viðskiptavinir sem hlupu apríl hjá ELKO í dag tóku uppátækinu vel, en nokkur fjöldi lét gabbast og mætti í verslun auk þess að viðskiptavinir höfðu samband í gegnum netspjall og nýtt Snjallspjall ELKO að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu. 

Í auglýsingabæklingi sem dreift var með Fréttablaðinu í morgun var viðskiptavinum boðið að koma við hjá ELKO í Lindum eða skrá sig á lista til að reynsluaka nýjum Sony Vision-S rafmagnsbíl, en ekki er áætlað að bíllinn verði kominn á markað fyrr en á næstu árum. 

Í stað þess að fá að skoða eða prufukeyra bílinn bauðst þeim sem hlupu apríl að skrá sig í pott sem dregið verður úr eftir helgi og fær einn heppinn viðskiptavinur glænýja PlayStation 5 leikjatölvu.  

Sony Vision S 01 bíllinn var fyrst sýndur á tækniráðstefnunni CES í Las Vegas fyrr á árinu og ætlað að hann komi á markað á næstu þremur árum. Ekki er enn vitað hvenær svona bíll sést mögulega á götum hér á landi.  

„Við vonum að fólk fyrirgefi okkur galsaskapinn, en við stóðumst ekki mátið fyrst útgáfu bæklingsins bar upp á þennan dag,“ segir Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri ELKO.  

Sony Vision S 01.
Sony Vision S 01.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert