Lilja kærði sig ekki um knús

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Hari

Fulltrúar á Búnaðarþingi segja að Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, hafi vísað formanni Bændasamtakanna á dyr í móttöku flokksins eftir setningarathöfn Búnaðarþings á fimmtudag. Í ár var þingið haldið undir yfirskriftinni Framsýnn landbúnaður. Um kvöldið héldu þingflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og fleiri stjórnmálaflokkar, móttökur fyrir bændur, stjórn og framkvæmdastjórn Bændasamtakanna.

Kærði sig ekki um faðmlag

Þegar Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, kom í veisluhöld Framsóknarflokksins tók Lilja á móti honum með spurningunni: „Gunnar, hvað ert þú að gera hér?“ Þá gerði Gunnar tilraun til að faðma Lilju en hún stoppaði hann af.

Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands.
Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands.

„Móttakan í anddyrinu var þannig að ég sá ekki ástæðu til að vera þar áfram. Ég ætlaði bara að heilsa henni,“ segir Gunnar en eftir stutt orðaskipti við Lilju ákvað hann að fara aftur á hótelið sitt í stað þess að ganga inn í veislusalinn. Upplifun hans var sú að Lilja hafi í raun vísað honum á dyr. „Hún gaf engar skýringar á því hvers vegna hún vildi ekki hafa mig þarna. Ég ætlaði ekki að fara að munnhöggvast við hana.“

Rótin í Garðyrkjuskólanum

Lilja telur Gunnar hafa móðgast óþarflega mikið. Hún sé gjörn á að gantast og það hafi hún verið að gera þegar hún heilsaði Gunnari með þessum hætti. Þá kveðst hún lítt gefin fyrir faðmlög, sérstaklega sem kona í stjórnmálum. Hún játar að þótt Gunnar hafi fagnað því að sjá hana, hafi hún ekki verið jafn glöð að sjá hann.

„Ég hef ekki verið hrifin af hans framgöngu varðandi Garðyrkjuskólann á Reykjum,“ útskýrir hún. Gunnar var, sem formaður Sambands garðyrkjubænda, ötull í gagnrýni vegna reksturs Garðyrkjuskólans á Reykjum, eftir að hann var settur undir Landbúnaðarháskólann. Beindist gagnrýnin að menntamálaráðherra á þeim tíma, en því embætti gegndi Lilja. Gunnari þótti málaflokkurinn afskiptur en Lilja er á öðru máli.

Fleiri atvik eru sögð hafa borið við á Búnaðarþingi, sem meðal annars verða rædd á stjórnarfundi Bændasamtakanna í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert