HEI sektað um eina og hálfa milljón

Guðjón Sigurbjartsson, framkvæmdastjóri HEI.
Guðjón Sigurbjartsson, framkvæmdastjóri HEI. Ljósmynd/Arnaldur

Persónuvernd hefur úrskurðað HEI – Medical Travel til að greiða sekt upp á eina og hálfa milljón vegna brota á persónuverndarlögum.

HEI – Medical Travel er fyrirtæki sem sérhæfir sig í að aðstoða fólk til að sækja heilbrigðisþjónustu erlendis.

Í tilkynningu frá Persónuvernd segir:

„HEI hafði nýtt netfangalista sem starfsmaður fyrirtækisins hafði aflað með því að skrá sig inn á innri vef Læknafélags Íslands, með aðgangi læknis sem tengdur var starfsmanninum fjölskylduböndum, og sótt þaðan netföng fjölda lækna.“

Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið heimild fyrir öflunar netfangs kvartanda, skráningu, varðveislu né notkunar þess.

„Þá var jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að aðgangsbeiðni kvartanda hefði ekki verið afgreidd í samræmi við lög, en persónuupplýsingum hans var eytt eftir að aðgangsbeiðnin var lögð fram,“ segir í tilkynningunni.

Lögð var stjórnvaldssekt á fyrirtækið upp á eina og hálfa milljón króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert