Mikilvæg félagsleg og heilbrigðisleg forvörn

Margrét Lilja Guðmundsdóttir fór yfir niðurstöður árlegrar könnunar á frístundaiðkun …
Margrét Lilja Guðmundsdóttir fór yfir niðurstöður árlegrar könnunar á frístundaiðkun barna og ungmenna og áhrif hennar á vímuefnanotkun. Hákon Pálsson

Mikilvægt er að efla þátttöku barna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi, enda ljóst að skipulagt starf sé mikilvæg félagsleg og heilbrigðisleg forvörn.

Þetta sagði Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra meðal annars þegar hann opnaði málþing um þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi. 

Málþingið er haldið af ÍSÍ og UMFÍ.

Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra
Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra Hákon Pálsson

75% af vökutíma barna séu frítími

Margét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningum og kennari við íþróttadeild Háskólans í Reykjavík, fór yfir niðurstöður kannanna sem lagðar eru fyrir grunnskólabörn einu sinni á ári. 

„Ekkert land í heiminum safnar og notar svona gögn,“ segir hún og leggur áherslu á að íslenska forvarnarmódelið sé heimsfrægt og innleiðing á því sé að eiga sér stað víða um heim. 

„Ef okkur líkar ekki hver staðan er, getum við breytt henni.“

Helstu áhættuþættir í tengslum við vímuefnaneyslu barna og ungmenna eru jafningjahópurinn og óskipulagðar athafnir. Verndandi þættir eru skipulagt íþrótta- og tómstundastarf og stuðningur foreldra. 

Sjötíu og fimm prósent af vökutíma barna á Íslandi, eru frítími, að sögn Margrétar. Þar af leiðandi sé mikilvægt að börn sæki skipulagða starfsemi í umsjón fullorðins fagaðila, og hangsi sé eytt út úr dagskránni. 

„Börnum í íþróttum líður betur, þau sofa meira, eru hamingjusamari og gengur betur í námi.“

Þar að auki sé íþróttaiðkun góð leið til að aðlagast samfélaginu.

Sláandi munur

Sjáanlegur munur er í dag, og hefur verið undanfarin ár, á þeim sem börnum sem koma frá íslenskumælandi heimilum, samanborið við börn frá heimilum þar sem önnur tungumál eru töluð. Þau fyrrnefndu eru mikið ólíklegri til að sækja skipulagt íþróttastarf.

Til að mynda taka 82 prósent barna frá íslenskumælandi heimilum í fyrsta til öðrum bekk, þátt í skipulögðu starfi að minnsta kosti einu sinni í viku, en ekki nema 62 prósent af börnum frá heimilum þar sem annað tungumál er talað. 

Margrét bendir á að börnin séu mörg af austur-evrópskum uppruna eða frá spænskumælandi löndum, þar sem íþróttir hafi nánast ekkert forvarnargildi. 

„Börn af erlendum uppruna eru líklegri til að gegna frekari hlutverkum á heimili sínu en  íslensku bómullarhoðrarnir okkar. Koma kannski frá menningarheimum þar sem meiri áhersla er lögð á það.“

Þá séu fjárhagsaðstæður líklegri tll þess að hindra frístundaiðkun barna af erlendum uppruna. 

„Við þurfum að leggja áherslu á að bjóða þessa einstaklinga velkomna snemma og miðla upplýsingum til foreldra þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert