Gaman að fá að vera breysk

Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona segist vera frekar feimin, nema þegar hún …
Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona segist vera frekar feimin, nema þegar hún feli sig á bakvið karaktera og kringumstæður. mbl.is/Ásdís

„Þetta er það erfiðasta sem ég geri, að fara í viðtöl. Þá þarf ég að vera ég sjálf,“ segir leikkonan ástsæla, Ragnheiður Steindórsdóttir, sem fylgt hefur leiklistargyðjunni alla ævi. Heiða, eins og hún er oftast kölluð, býður í bæinn í fallegt hús sitt á Seltjarnarnesi.
Í anddyrinu rekur blaðamaður augun í svarthvíta ljósmynd af foreldrum Heiðu, leikarahjónunum þekktu, Steindóri Hjörleifssyni og Margréti Ólafsdóttur. Ljóst er að Heiða er lifandi eftirmynd móður sinnar; sama brosið, sami augnsvipur.

Hér er myndin skemmtilega sem Ragnheiður er með í anddyrinu …
Hér er myndin skemmtilega sem Ragnheiður er með í anddyrinu heima hjá sér. Foreldrar hennar voru þekkt leikarahjón, þau Steindór Hjörleifsson og Margrét Ólafsdóttir.

„Já, finnst þér ekki? Stundum þegar ég er á gangi í bænum og sé spegilmynd minni bregða fyrir í gluggum verslana, bregður mér í brún. Þar er þá móðir mín lifandi komin,“ segir Heiða og brosir.

Hún ber aldurinn vel, er kvik í hreyfingum, brosmild og ekki að sjá að hún sé að verða sjötug eftir aðeins fáeinar vikur.

„Hvern hefði grunað þetta! Það er dásamlegt að fá að vakna á morgnana og sem betur fer er ég svo hress og orkumikil,“ segir Heiða og ekki er annað að sjá en að hún sé í fullu fjöri. Hún leikur sem stendur í tveimur leikritum í Þjóðleikhúsinu og sést á skjánum bæði í Brúðkaupinu mínu og Vitjunum.

Ætlaði að verða ballerína

Foreldrar Heiðu störfuðu bæði í Þjóðleikhúsinu og hjá Leikfélagi Reykjavíkur.

„Ég veit ekki betur en að pabbi hafi verið eini leikarinn sem var í öllum opnunarsýningum Þjóðleikhússins og mamma lék í einni þeirra og hlutverkin þeirra þar voru fleiri. En eftir að Þjóðleikhúsið var vígt voru margir sem vildu leggja starfsemi Leikfélags Reykjavíkur niður. Hópur fólks ákvað að það mætti ekki gerast og þau voru þeirra á meðal. Þau helguðu Leikfélaginu krafta sína eftir það og ég var oft með þeim í vinnunni. Heima var mikið talað um leiklistina og við sáum allar sýningar í bænum. Leikhúsið heillaði mig og mér leið alltaf vel þar, fannst það bæði skemmtilegt og spennandi en ég ætlaði samt að verða ballerína og byrjaði sjö ára í listdansskóla Þjóðleikhússins. En þegar ég var tólf ára var mér orðið svo illt í fótunum og læknirinn sagði að ég mætti ekki lengur stunda dansinn. Þetta var hrikalegur skellur fyrir tólf ára stelpu og mjög dramatískt. En ég hefði aldrei orðið ballerína; ég hafði hvorki vöxtinn í það né skapgerðina og það var því lán í óláni að vera bannað að dansa ballett.“

Sjö ára gömul steig Heiða fyrst á fjalirnar í Iðnó þegar hún lék í sýningu sem hét Sex persónur leita höfundar. Næst var það í miðjum stúdentsprófum, í verkinu Dómínó eftir Jökul Jakobsson.

Hún segist aldrei hafa verið feimin sem barn þegar hún var á sviði eða að lesa upp ljóð.

„Stundum taugaóstyrk auðvitað og það hrjáir mig enn í dag, en mér líður best þegar ég hef karakter og kringumstæður til að fela mig bak við. Sjálfstraustið er oft ansi veikburða þegar ég þarf að koma fram í eigin persónu. Ég er frekar feimin. Ég svitna í lófunum, þorna í munninum, titra og skelf ef ég þarf að standa upp á félagsfundi og segja skoðun mína. Það er átak. Að halda ræðu í veislu er bara skelfing. Ég geri það bara helst ekki!“

Bréf og kassettur í röðum

Í miðju menntaskólanámi fór Heiða, þá sautján ára gömul, til Bandaríkjanna á vegum AFS sem skiptinemi og var það mikið ævintýri.

„Mig langaði og elsku hjartans foreldrar mínir, sem máttu ekki af mér sjá, leyfðu mér að fara. Þá var auðvitað ekki komið neitt net og rándýrt að hringja. Ég talaði bara við þau í síma á afmælinu mínu og á jólunum, en skrifaði endalaus bréf og talaði inn á kassettur sem sendar voru fram og til baka. Ég frétti það löngu seinna að aðskilnaðurinn hefði verið foreldrum mínum þungbær, svo mjög að pabbi varð hreinlega veikur. En þau áttuðu sig á því að ég hefði gott af þessu, sem ég hafði svo sannarlega. Gott og gaman,“ segir hún en Heiða bjó hjá prestsfjölskyldu í Minneapolis í Minnesota.

„Ég komst líka inn í frábært prógramm hjá Children’s Theatre of Minneapolis, en þarna voru krakkar frá sjö til 21 árs. Ég var þar í leiklistartímum og lék með þeim og þetta gerði útslagið með hvað árið var skemmtilegt,“ segir hún og segist síðan hafa komið heim og náð að klára stúdentinn með sínum árgangi.

„Ég skráði mig þá í háskólann í ensku og dönsku. Svo fór ég í inntökupróf í skóla í Bretlandi og komst inn í þann fyrsta, sem mig langaði líka mest í, The Bristol Old Vic Theatre School, en ég var fyrsti íslenski nemandinn þar. Það var dásamlegur tími.“

Hysterían lá í loftinu

Þrátt fyrir að árin í Bristol hafi verið bæði skemmtileg og lærdómsrík, upplifði Heiða líka erfiðleika.

 „Sumarið áður en ég fór út fékk ég lithimnubólgu í augun sem var afskaplega slæm og háskaleg. Úlfar heitinn Þórðarson augnlæknir bjargaði sjóninni minni. Þetta hrjáði mig allt sumarið og á meðan ég var úti í Bristol en þar var ég líka í meðhöndlun á augnspítala. Ég fór líka að fá þvagfærasýkingar og vandamál í liðum, en maður var svo ungur og vitlaus og það var svo gaman að lifa að ég áttaði mig ekki á því hvað þetta var alvarlegt. Ef lithimnubólga er ekki meðhöndluð getur maður misst sjónina,“ segir Heiða og segist hafa gengið á milli lækna þegar hún kom heim og farið í endalausar rannsóknir.

„Það var alltaf verið að að leita að orsök fyrir bólgunum og allt var myndað og skoðað en ekkert fannst. Ég var farin að kynna mig hjá læknum með því að segja: „Ég heiti Ragnheiður og ég er hysterísk“. En þegar ég var búin að berjast við þetta í sjö ár var ég svo heppin að ungur læknir leit á heildarmyndina og greindi mig með Reiter-sjúkdóm, sem er sjálfsofnæmissjúkdómur,“ segir Heiða og segist hún hafa þurft ítrekað að taka mikið magn af sterum til að halda einkennum niðri.

„Ég lagaðist svo af þessu eftir langan lyfjakúr. Það var mikill léttir að vita hvað þetta var og að ég væri hreint ekki hysterísk.“

Gæti orðið erfiður róður

Þegar Heiða kom heim úr námi var komið haust og þegar búið að ráða í öll hlutverk í leikhúsunum. Hún skráði sig þá aftur í háskólann en örlögin gripu í taumana.

Ragnheiður lék í Ást og upplýsingum í vetur í Þjóðleikhúsinu.
Ragnheiður lék í Ást og upplýsingum í vetur í Þjóðleikhúsinu.

„Það veiktist yndisleg leikkona sem var að æfa tvö verk hjá Leikfélaginu og ég var beðin um að hlaupa í skarðið. Það var hlutverk í Saumastofunni í Iðnó og Kjarnorku og kvenhylli í Austurbæjarbíói. Og ég hef verið að síðan,“ segir Heiða.

„Pabbi reyndi að leiða mér fyrir sjónir að ég gæti orðið hvað sem ég vildi og benti mér á ýmsa spennandi starfsmöguleika. Ég vissi auðvitað sem var að leikarastarfið væri alls ekki fjölskylduvænt, gæti verið líkamlega erfitt, taugatrekkjandi, atvinnuöryggi lítið og vonbrigðin líklega mörg. Þau mamma studdu mig samt alltaf dyggilega,“ segir hún og segist hafa verið lausráðin hjá Leikfélaginu næstu árin.

„Árið 1983 bauðst mér samningur við Þjóðleikhúsið og ég varð afskaplega glöð. En það fyrsta sem ég gerði var að fá launalaust leyfi til að fara norður og leika Elísu Doolittle í My Fair Lady og Nonni minn kom með og gerði alveg stórkostlega leikmynd“ segir Heiða, en maður hennar var Jón Þórisson, leikmyndateiknari.

Að loknu þessu leikári lætur Ragnheiður af störfum sem fastráðin leikkona við Þjóðleikhúsið.

„Á þessu lokaári mínu hef ég leikið í Kardemommubænum, Jólaboðinu, Ást og upplýsingum og svo er ég að æfa í söngleiknum Sem á himni, sem átti að vera búið að frumsýna en frestaðist vegna faraldursins og verður frumsýndur í haust. Svo það hefur sjaldan verið meira að gera og verkefnin öll mjög skemmtileg,“ segir Heiða.

Í söngleiknum vinsæla, Gæjum og píum frá árinu 1984, lék …
Í söngleiknum vinsæla, Gæjum og píum frá árinu 1984, lék Heiða á móti Agli Ólafssyni. Ljósmynd/Þjóðleikhúsið

„Mín hollusta hefur alltaf verið fyrst og fremst við Þjóðleikhúsið. Eftir sjötugt má ég svo vinna áfram sem lausráðin en þá get ég farið að velja; ég má segja já eða nei. Ég hef enn svo mikla orku,“ segir Heiða og segir að sér hafi yfirleitt þótt starfið gefandi og ánægjulegt.

Giftust á sviði Iðnó

Heiða á afar góðar minningar frá Iðnó.

„Ég elskaði Leikfélag Reykjavíkur og Iðnó, það var mitt hús. Við Nonni kynntumst þar, störfuðum þar bæði og enduðum á að gifta okkur þar uppi á sviði árið 2014 eftir 39 ára sambúð, en þá var hann orðinn veikur og var á leið í tvísýna aðgerð. Við höfðum alltaf ætlað að gifta okkur en einhvern veginn fórst það fyrir. En þarna buðum við nánustu fjölskyldu og vinum til veislu með viku fyrirvara en enginn vissi samt að það yrði brúðkaup. Við sögðumst bara ætla að halda dúndurpartý áður en Nonni færi í aðgerðina. Svo fólk mætti bara á gallabuxunum. Við fengum tónlistarmenn til að spila öll gömlu Iðnó-lögin og svo leiddi sonur okkar mig í salinn. Þá fóru þeir að spila brúðarmarsinn og fólk brosti í gegnum tárin þegar það sá brúðarvöndinn og prestinn sem birtist á sviðinu. Þetta var alveg dásamlegt!“ segir Heiða, en Jón lést tveimur árum síðar úr krabbameini, aðeins 67 ára gamall. Þau hjón eiga tvö uppkomin börn, Steindór Grétar fæddist 1985 og Margrét Dórothea er fædd 1990.

Þrjár gullfallegar ljóskur

Talið berst að útvarpi, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum sem Heiða hefur leikið í, en hlutverkin þar eru einnig orðin fjölmörg.

„Ég sakna þess að leika fyrir útvarp. Það er krefjandi og skemmtilegt. Hér áður fyrr var útvarpsleikhúsið stór hluti af starfinu en nú virðist það hreinlega liðið undir lok, hefur breyst í einhvers konar þáttagerð. Leikarar eru líka sjaldan fengnir í upplestur lengur, þáttastjórnendur eru bara lesarar í þáttum hvers annars. Þetta er leiðinleg þróun,“ segir hún.

Heiða lék Auði í kvikmyndinni Útlaganum.

„Það var mikið ævintýri og Nonni minn gerði leikmynd og búninga. Ég man að einn gagnrýnandinn skrifaði að þarna væru í kvenhlutverkum þrjár gullfallegar ljóskur sem örugglega myndu vekja áhuga erlendra kaupenda að myndinni. Svona var nú sagt þá en yrði líklega ekki sagt nú, á tímum pólitískrar rétthugsunar,“ segir hún kímin, en myndin kom út árið 1981.

„Áður hafði ég leikið aðalkvenhlutverkið í breskri þáttaröð frá BBC sem heitir Running blind,“ segir hún en þáttaröðin hét á íslensku Út í ósvissuna, byggða á skáldsögu eftir Desmond Bagley.

Við höldum áfram að rifja upp gamla daga.

„Ég lék í fyrstu íslensku sjónvarpsseríunni; Undir sama þaki sem var í svarthvítu. Ég lék þar kærustu Ladda og við höfum skemmt okkur vel við að rifja það upp undanfarið, því ég lék líka kærustuna hans í Jarðarförinni og Brúðkaupinu. Eftir öll þessi ár!“ segir hún og brosir.

„Svo lék ég Þórgunni í Föstum liðum eins og venjulega, en var hrædd um að ég gæti ekki verið með því ég var orðin ófrísk. Gísli Rúnar heitinn sagðist bara redda því. Það var skrifað inn í handritið að Indi hefði gleymt að taka pilluna sína, svo það útskýrði óléttuna. Þættirnir voru ekki teknir í réttri röð svo ég held að bumban hljóti að hafa stækkað og minnkað milli þátta,“ segir hún og hlær.

„Það lá alltaf í loftinu að ég væri hysterísk, en …
„Það lá alltaf í loftinu að ég væri hysterísk, en eftir að ég var búin að berjast við þetta í sjö ár var ég svo heppin að einn ungur læknir leit á heildarmyndina og greindi mig með Reiter-sjúkdóm, sem er sjálfsofnæmissjúkdómur,“ segir Heiða og segist nú vera heppin með heilsuna. mbl.is/Ásdís

„Ég hef lítið verið í bíómyndum eftir Útlagann, en nefni þó Ég man þig. En ég hef verið í mörgum þáttaröðum á borð við Hamarinn, Rétt og Brot. Mér finnst mjög gaman að leika í sjónvarpi og var núna nýlega í Jarðarförinni, Brúðkaupinu og Vitjunum. Ég hef gjarnan leikið glæsilegar, fínar og flottar konur og finnst mjög gaman að missa aðeins andlitið og fá að vera breysk, eins og hún frú Guðríður mín í Vitjunum.“

Full aðdáunar á konum

Hlutverkum fyrir konur hefur fjölgað mjög að undanförnu og jafnvel er nú margt í boði fyrir konur af eldri kynslóðinni.

„Það er allt að breytast til batnaðar vegna þess að nú eru konur farnar að skrifa, leikstýra og framleiða. Það er dásamlegt! Ég tek til dæmis ofan fyrir Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur, Valgerði Þórisdóttur og Evu Sigurðardóttur fyrir seríuna Vitjanir, sem þær skrifa og leikstýra; það er miklu meira en að segja það og mörg fjöll að klífa að koma þessu á koppinn. Konur eru að sækja í sig veðrið á öllum póstum í þessum geira og það er frábært að fylgjast með því. Ég er full aðdáunar á konum á öllum aldri í dag,“ segir hún.

„Mér finnst mjög gaman að fá að missa andlitið vera …
„Mér finnst mjög gaman að fá að missa andlitið vera breysk, eins og í Vitjunum,“ segir Heiða sem leikur Guðríði í Vitjunum. Hér sést hún leika á móti Helgu Brögu. Ljósmynd/Juliette Rowland

„Áfram stelpur!“ 

Ragnheiður er síður svo að fara að hætta að leika. 

„Ég vona að ég fái að halda heilsu og að ég geti notið þess að vera virk. En svo verður líka dásamlegt að fá meiri tíma með með fjölskyldu og vinum. Mig langar líka að leika mér oft og mikið við litla vininn minn, hann Steindór Gísla. Samverustundum hefur fækkað undanfarið, bæði í faraldrinum og vegna vinnuálagsins. Mig langar að bæta úr því. Kannski kemst ég á skemmtileg námskeið og get bætt við þekkingu mína. Kannski auðnast mér að sjá meira af veröldinni. En það sem mér er samt efst í huga er vonin um betri heim fyrir komandi kynslóðir, loftslags - og umhverfismálin og baráttan fyrir mannvirðingu, jafnrétti og umburðarlyndi. Við verðum einfaldlega að gera betur.“

Ítarlegt viðtal er við Ragnheiði Steindórsdóttur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert