Ný áfengislög styðja við íslenska framleiðslu og atvinnu

Laufey Sif Lárusdóttir, einn eigenda Ölverks og formaður Samtaka Íslenskra …
Laufey Sif Lárusdóttir, einn eigenda Ölverks og formaður Samtaka Íslenskra handverksbrugghúsa, segir ný áfengislög vera mikill áfangasigur fyrir samtökin. Hún telur lögin styðja við íslenska framleiðslu og atvinnu. Ljósmynd/Aðsend

Laufey Sif Lárusdóttir, einn eigenda Ölverks og formaður Samtaka Íslenskra handverksbrugghúsa, segir ný áfengislög vera mikinn áfangasigur fyrir samtökin. Bendir Laufey Sif á að það, að heimila sölu áfengis beint frá framleiðslustað, sem og lækkun áfengisgjalda, hafi verið þau mál sem samtökin hafi unnið að af krafti frá stofnun þeirra árið 2018.

„Það er fyrst núna sem íslenskum smáframleiðendunum gefst kostur á að þjónusta og koma til móts við stækkandi hóps einstaklinga sem koma til Íslands og stunda hér bjórferðamennsku,“ segir hún og bætir við að slík ferðamennska sé stækkandi liður í ferðaþjónustu hérlendis.

Lauf­ey og Elv­ar, eig­end­ur og stofn­end­ur Ölverk brugg­húss í Hvera­gerði.
Lauf­ey og Elv­ar, eig­end­ur og stofn­end­ur Ölverk brugg­húss í Hvera­gerði. Ljósmynd/Aðsend

Líti svo á að sala á handverksbjór muni aukast

Aðspurð segir hún að ný áfengislög þýði ekki að sala bjórs frá smáframleiðendum muni minnka í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) heldur muni hún ef til vill frekar aukast.  

 „Við höfum alltaf litið á það þannig að ef eitthvað þá muni sala á íslenskum handverksbjór, sem árið 2021 var einungis 2,8% í heildarsölu bjórs í ÁTVR, aukast. Þetta eru brugghús víðs vegar um landið og eru oftast ekki mjög aðgengileg meginþorra þjóðarinnar og stórum hluta erlendra ferðamanna. Fólk fer langar leiðir í þessi brugghús til að kynnast þeirri menningu sem er á hverjum stað og því sem er að gerast í viðkomandi brugghúsi. Svo eftir ánægjulega upplifun og ánægjulega kynningu á viðkomandi brugghúsi, þá vilja þeir, og það hefur oft verið krafa um það, kaupa af framleiðslustað til að geta tekið með heim,“ segir Laufey Sif.

Laufey segir að þrátt fyrir að samtökin fagni umræddum breytingum á áfengislögum, þá vilji þau ekki algjöran glundroða í áfengismálum hér á landi. ÁTVR sé ekki óvinurinn. „Íslenskir áfengisframleiðendur starfa eftir mjög skýrum lagaramma og það er ekki hver sem er sem getur opnað áfengisframleiðslustað. Hér er mjög strangt eftirlit með framleiðslustöðum og erum mjög stolt af því að geta staðið fyrir gæði, fagmennsku og það einmitt að framleiða lítið magn.“

Handverksbjór er vinsæll á meðal ferðamanna að sögn Laufeyjar. Hún …
Handverksbjór er vinsæll á meðal ferðamanna að sögn Laufeyjar. Hún segir að margir þeirra koma til Íslands til að stunda bjórferðamennsku. Ljósmynd/Aðsend

Félagsmenn samtakanna mega vera stoltir

Hún segir frumvarpið styðja við íslenska framleiðslu og innlenda atvinnustarfsemi sem hún telur vera fagnaðarefni. Næst á dagskrá er að fá áfengisgjöld lækkuð.

„Það er engin glóra í því að í dag skuli áfengisgjöld á bjór vera hærri en á léttvíni,“ segir hún en hún telur alla umræðu um lýðheilsusjónarmið ekki eiga beint við bjór. „Hér spretta upp brugghús víðs vegar um landið sem einblína á ferskvöruframleiðslu sem bjór er svo sannarlega, sem og auðvitað léttölsframleiðsla sem er stækkandi markaður. Þannig að þetta snýst ekki lengur um áfengismagn, þetta snýst um gæði, bragð, fagmennsku og félagsmenn í samtökunum mega vera stoltir af sínu framlagi til bjórsögu og bjórmenningar Íslands“.  

Laufey kveðst þakklát þeim sem hafa unnið hörðum höndum að því að fá frumvarpið samþykkt fyrir þingi, sem og öllum þeim stuðningsmönnum sem ýttu undir umræddar breytingar. Hún segir að nú sé keflið hjá framkvæmdavaldinu til að setja skýrar reglur um framkvæmd laganna, enda sé tíminn mjög knappur að sögn hennar. Lögin taka gildi 1. júlí.    

Afrakstur áralangrar baráttu

Ólafur Þorvaldz, eigandi og framkvæmdastjóri Ægis Brugghús, segir að frumvarpið sé afrakstur áralangrar baráttu áfengisframleiðanda til að fá að selja vörur sínar af framleiðslustað beint til kúnnanna. Hins vegar á eftir að koma í ljós hvernig fyrirkomulaginu verði háttað og hvaða takmarkanir verða settar á söluna.

„Maður á eftir að sjá hvernig ráðherra leysir úr því að það sé búið að samþykkja lögin, það er hvernig fyrirkomulagið verði með magn og annað slíkt, en það voru einhverjar takmarkanir á hversu mikið mætti selja hverjum einstaklingi“.

Hann kveðst hins vegar taka breytingunum fagnandi. „Það er búið að vera mikið baráttumál að fá að selja vörurnar okkar beint til viðskiptavina. Maður hlakkar bara til að sjá hvaða útfærslur ráðherra ætlar að hafa á þessu; bæði hvernig sölunni verði háttað og hvort salan verði takmörkuð að einhverju leyti, til dæmis að hún verði bundin við kynningu á brugghúsinu,“ segir hann.

Ólafur Þorvaldz, eigandi og framkvæmdastjóri Ægis Brugghús, kveðst taka breytingunum …
Ólafur Þorvaldz, eigandi og framkvæmdastjóri Ægis Brugghús, kveðst taka breytingunum fagnandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert