Var vísað úr landi í Bandaríkjunum

Guðrún Aspelund tekur við starfi sóttvarnalæknis 1. september.
Guðrún Aspelund tekur við starfi sóttvarnalæknis 1. september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar Guðrún Aspelund, verðandi sóttvarnalæknir, ætlaði að hefja fimm ára sérnám í almennum skurðlækningum við Yale-háskóla í Bandaríkjunum kom babb í bátinn. Hún var að vísu „komin inn fyrir þröskuldinn“ eftir að hafa starfað í tvö ár á rannsóknastofu við háskólann en þurfti að sækja um nýtt dvalarleyfi vegna sérnámsins. Það gekk treglega og að því kom að henni var vísað úr landi.

Það var að vonum mikill skellur og Guðrún óttaðist að staðan yrði tekin af henni. Hún beið milli vonar og ótta heima á Íslandi en á daginn kom að fleiri í hennar stöðu höfðu lent í sömu vandræðum við aðra háskóla. Það varð til þess að Joe Lieberman öldungadeildarþingmaður Connecticut gekk í málið og leysti það. Eftir mánuð gat Guðrún því snúið aftur til Yale. „Ég á honum mikið að þakka. Það var mjög óþægilegt að bíða heima og framtíðin var óráðin í heilan mánuð,“ segir Guðrún.

Guðrún sérhæfði sig síðar í barnaskurðlækningum í Kanada en vann síðan í rúman áratug á Columbia- og Westchester-sjúkrahúsunum í New York sem skurðlæknir. Hún var hins vegar flutt til Lundúna þegar hún sótti um starf yfirlæknis á sóttvarnasviði Embættis landlæknis.

Þetta var haustið 2019 og hún fékk starfið. Var til að byrja með mest í fjarvinnu en kom eina viku í mánuði til landsins og vann á skrifstofunni, sem þá var á Rauðarárstíg.

Fóru með hraði frá Lundúnum

Guðrún hafði ekki unnið lengi hjá landlækni þegar Gunnari Jakobssyni, eiginmanni hennar, bauðst starf varaseðlabankastjóra í Reykjavík sem hann þáði. „Það var í sjálfu sér ekki flókin ákvörðun. Við höfðum alltaf haft á bak við eyrað að koma heim, Ísland togar alltaf í mann, og rétta tækifærið kom þarna.“

Guðrún ásamt eiginmanni sínum, Gunnari Jakobssyni og dætrunum Kristínu og …
Guðrún ásamt eiginmanni sínum, Gunnari Jakobssyni og dætrunum Kristínu og Kolbrúnu.


Hún ætlaði raunar að vera í Lundúnum sumarið 2020 og flytja heim um haustið en þá kom Covid. „Það réði því að ég flýtti komunni heim; ástandið breyttist dag frá degi og allt stefndi í útgöngubann í London. Þau voru líka ærin verkefnin hérna hjá sóttvarnalækni. Við pökkuðum því bara í ferðatöskur og drifum okkur heim. Áttum að vísu íbúð hérna heima, sem auðveldaði málið. Á þeim tímapunkti bjuggumst við bara við að fara aftur út um sumarið að sækja búslóðina en af því varð ekki vegna stöðunnar í faraldrinum. Ég kom aldrei aftur í íbúðina okkar í London, Gunnar fór löngu seinna og gekk frá gámnum.“

Ítarlega er rætt við Guðrúnu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert