Segir Framsókn hafa svikið kosningaloforð í dag

Horft af Vatnsendahvarfi, þar sem leggja á hraðbraut, yfir höfuðborgina.
Horft af Vatnsendahvarfi, þar sem leggja á hraðbraut, yfir höfuðborgina. Ljósmynd/Helga Kristín Gunnarsdóttir

Helga Kristín Gunnarsdóttir, stjórnandi facebook-hóps íbúasamtakanna Vina Vatnsendahvarfs, segir Framsókn hafa svikið kosningaloforð sitt þegar nýtt deiliskipulag var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur í dag.

„Á fundi Náttúruvina Reykjavíkur fyrir kosningar þá var Þorvaldur Daníelsson varaborgarfulltrúi staðfastur á því að Framsókn myndi ekki samþykkja Arnarnesveg í núverandi mynd,“ skrifar Helga í færslu í áðurnefndum facebook-hóp.

„Hann sagði að Framsókn myndi kalla eftir því að nýtt umhverfismat yrði gert fyrir þessa framkvæmd, enda hvorki umhverfislega né siðferðislega verjandi að byggja slíka framkvæmd á tveggja áratuga gömlu umhverfismati.“

Ítrekað reynt að ná tali af Einari

Þá segir hún Náttúruvini Reykjavíkur og Vini Vatnsendahvarfs ítrekað hafa reynt að ná tali af Einari Þorsteinssyni en hann hafi hunsað alla þeirra pósta.

Helga bætir við að hún hafi nýlega náð tali af Þorvaldi og að hann hafi sagst ekki hafa áttað sig á því að málið væri svona langt komið, en hann myndi skoða þetta betur og hafa síðan samband.

Líklega síðasta sumarið til að njóta náttúrunnar

„Við heyrðum ekki aftur frá honum og Framsókn kaus með nýju deiliskipulagi í morgun án þess að fara fram á nýtt umhverfismat,“ skrifar Helga.

Hún bendir á að Kolbrún Baldursdóttir, oddviti flokks fólksins í Reykjavík, hafi ítrekað reynt að fá málinu frestað og kallað eftir nýju umhverfismati sem var hafnað.

Þá segir Helga að samtökin muni kæra deiliskipulagið en hún telur ólíklegt að kæran verði tekin fyrir efnislega áður en framkvæmdir hefjast.

Hún hvetur þá fólk til að njóta náttúrunnar og útsýnisins á hæðinni áður en framkvæmdir við 3. kafla Arnarnesvegar hefjast. Þetta sé líklega síðasta sumarið til þess.

Sums staðar á samfélagsmiðlum hefur að undanförnu mátt sjá fólk harma áform um lagningu vegarins.

Aðstæður breyst verulega

Íbúar í nágrenni fyrirhugaðs vegar hafa bent á að aðstæður hafi breyst svo mikið á þeim fjöru­tíu árum sem veg­ur­inn hef­ur verið í umræðunni, og frá því um­hverf­isáhrif­in voru met­in að nauðsyn­legt sé að gera nýtt um­hverf­is­mat.

Reykja­vík­ur­borg hef­ur ekki tekið und­ir þessi sjón­ar­mið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka