Áfengislöggjöfin gömul og úrelt

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er augljós mismunun á aðstæðum manna til að stunda viðskipti og svo horfum við á þessa þróun sem er að verða hér á landi og í kringum okkur, þetta er bara hluti af breyttu viðskiptafyrirkomulagi í heiminum.“

Þetta segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is um netverslun með áfengi, en eins og er hafa einungis erlend félög heimild til þess að selja áfengi í netverslun hér á landi.

„Ekki bara með tilliti til viðskipta með áfengi, heldur bara almennt í viðskiptum, og það er það sem er tímabært fyrir okkur að skoða. Ég meina, löggjöfin okkar um áfengismál er mjög gömul og hún er úrelt. Það þarf að færa hana til nútímahorfs.“

Nauðsynlegt að gera regluverkið skýrara

Jón segir nauðsynlegt að koma á skýrara umhverfi á viðskiptum með áfengi. Það sé tímabært að skoða heildarmyndina og með hvaða hætti viðskipti með áfengi geti átt sér stað.

„Ég vil sjá þessi viðskipti geta starfað á eðlilegum jafnréttisgrundvelli, þannig verðum við að búa um viðskipti í okkar landi eins og annars staðar, það er mín skoðun,“ segir Jón og bætir því við að ríkisstjórnin sé að setja saman starfshóp sem mun í sumar skoða útfærslu á reglum sem um þessi viðskipti geta gilt.

Á einokunarstaða ÁTVR undir högg að sækja?

„Hún hefur átt það að mínu mati í langan tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert