Sænska lögreglan horfir til Íslands

Lögreglan í Gautaborg mun beita íslenskri aðferðafræði þegar kemur að …
Lögreglan í Gautaborg mun beita íslenskri aðferðafræði þegar kemur að ofbeldi í nánum samböndum. AFP

Lögreglan í Gautaborg hefur ákveðið að breyta um aðferðafræði þegar kemur að rannsóknum á ofbeldi í nánum samböndum og verður nýja leiðin byggð á íslensku módeli.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir að íslenska aðferðafræðin hafi verið kynnt víða og að ánægjulegt sé að Svíarnir séu að taka hana upp. Þá segir hún fleiri þjóðir hafa sýnt aðferðafræðinni áhuga, þar á meðal Grikkir, sem eru væntanlegir í heimsókn í haust til að kynna sér íslenska módelið enn frekar.

Að sögn Sigríðar Bjarkar telja lögreglufyrirvöld aðferðafræðin hafa reynst vel en hún var innleidd á öllu landinu árið 2015. Hlutfallslega fleiri tilkynningar hafa borist um heimilisofbeldi síðan þá og fleiri dómar fallið brotaþola í vil. 

„Við höfum fundið fleiri börn sem að sæta heimilisofbeldi sem að við hefðum kannski ekki fundið með sömu aðferðum og við beittum áður.“

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fresta ekki rannsókn málsins

Aðferðafræðin sem um ræðir felst í auknu samstarfi með félagsmálayfirvöldum og áherslu á að veita fjölskyldu stuðning á meðan að rannsókn á heimilisofbeldi stendur yfir. 

Stærsta breytingin er varðar störf lögreglunnar, að sögn Sigríðar Bjarkar, felst þó fyrst og fremst í því að fresta ekki rannsókn málsins.

„Áður var það þannig að við fórum bara í útkallið þegar að það kom. Fórum á staðinn og stilltum til friðar. En núna er það þannig að við rannsökum málið eins langt og við komumst strax á vettvangi.“

Að sögn Sigríðar auðveldar þetta sönnun málsins og lögregla verður ekki eins háð framburði brotaþola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert