Líklegt að það verði eldgos með haustinu

Fagradalsfjall. Prófessur í eldfjallafræði segir að gosórói bendi til þess …
Fagradalsfjall. Prófessur í eldfjallafræði segir að gosórói bendi til þess að ekki sé langt í eldgos. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessi órói bendir til að það sé ekkert langt í gos,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, um jarðskjálftahrinuna sem hófst á hádegi á laugardag á Reykjanesskaganum og stendur enn yfir.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.

Öflug jarðskjálftahrina reið yfir suðvesturhornið í gærkvöldi og rétt fyrir hálf þrjú í nótt mældist skjálfti 5 að stærð við Kleifarvatn. Sex eftirskjálftar stærri en 3 hafa orðið síðan þá.

Þorvaldur segist vonast til þess að það gjósi ekki en allar líkur bendi til þess gagnstæða. Hvenær og hvar það verði er óvíst. Þorvaldur segir að líklegra sé að það gjósi með haustinu. „Langlíklegast er að það komi upp þar sem óróinn er mestur.“

Í gærkvöldi höfðu mælst yfir tíu þúsund skjálftar. Sá öflugasti mældist 5,5 að stærð um sexleytið á sunnudag. Skjálftavirknin hefur verið mestmegnis vestan við Þorbjörn, austnorðaustur af Grindavík og við Fagradalsfjall.

Mikilvægt að sætta sig við ástandið

Þorvaldur segir að það sé mikilvægt að landsmenn átti sig á því að við séum komin inn í nýtt gostímabil. Þau tímabil eru 200 til 400 ára löng. Hann nefnir að eldgosasaga Reykjaness segi okkur að eldvirknin komi fram í syrpum af eldgosum sem kallast eldar.

„Tveir síðustu eldar stóðu yfir í 30 ár. Það þýðir ekki að það hafi verið samfellt gos, heldur gaus mörgum sinnum á því tímabili,“ segir Þorvaldur og bætir við að það sé ekki ólíklegt að skaginn haldi þessu mynstri áfram. Hann telur mikilvægt að við sættum okkur við þetta og áttum okkur á hvernig við ætlum að búa með þessum tímabilum.

„Hvernig ætlum við að undirbúa okkur, þannig að áhrifin af hverju gosi verði eins lítil og kostur er? Draga þarf úr hugsanlegum áhrifum og skemmdum af völdum hraunrennslis eða gasmengunar. Reyna að sjá til þess að þetta hafi eins lítil áhrif og hægt er á hið almenna líf,“ segir Þorvaldur og nefnir að mikilvægt sé að vernda innviði Reykjanesskagans.

Hann segir einnig mikilvægt að taka það fram að mjög ólíklegt sé að eldgos á svæðinu verði mannskæð. „Þetta eru frekar kraftlítil hraungos.“

Meira í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert