Gæti fundist gaslykt í byggð í dag

Mikið gas kemur frá eldgosinu í Meradölum.
Mikið gas kemur frá eldgosinu í Meradölum. mbl.is/Árni Sæberg

Gasmengun mun dreifast víða yfir byggð í dag vegna vinds sem gengur í norður. Má búast við því að gaslykt gæti fundist í Hveragerði, Vogum og fleiri stöðum. Þetta segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Elín bendir á að inni á vefsíðu Veðurstofunnar sé að finna gasdreifingarspá þar sem hægt er að sjá hvernig gasið dreifir sér um Reykjanesskagann og Suðurlandið á hverjum klukkutíma. Að auki er hægt að sjá áhrifasvæði gass á næstu sex klukkutímum og á næstu 24 klukkutímum.

Áhrifasvæði gasmengunar næstu 24 klukkustundir.
Áhrifasvæði gasmengunar næstu 24 klukkustundir. Kort/Veðurstofa Íslands

Gasmengun í Reykjavík í morgun

Að sögn Elínar mun gasmengun ekki vera við jörðu á höfuðborgarsvæðinu í dag. 

„Hún virðist ekki ætla að ná jörðu hérna á höfuðborgarsvæðinu, hún mun vera yfir höfuðborgarsvæðinu,“ segir Elín. Hún tekur þó fram að borgarbúar fundu mögulega fyrir einhverri gaslykt snemma í morgun.

Hún segir að íbúar í Hveragerði, Reykjanesbæ og Vogum séu líklegastir til að finna fyrir gasmengun í dag. Hún ítrekar þó að gasmengun í bæjunum sé ekki mikil og ekkert til að hafa áhyggjur af.

„Það gæti sést á einhverjum mælum en það verður ekki mikið. Fólk getur alveg fundið fyrir einhverri lykt í dag en það er best að skoða loftgæðin inn á vefsíðu Veðurstofunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert