Vilja ekki týna fólki

Ljósmyndari mbl.is var á vettvangi í gær.
Ljósmyndari mbl.is var á vettvangi í gær. mbl.is/Hákon Pálsson

Nokkuð var um minniháttar slys á fólki við gosstöðvarnar í Meradölum í gærkvöldi. Veðrið var hvasst með úrkomu og lélegt skyggni var á gönguleiðinni. Áfram er útlit fyrir leiðinlegt veður á gossvæðinu um helgina, sérstaklega á morgun og mun svæðinu mögulega vera lokað þann dag.

Lejon Þór Pattison, björgunarsveitarmaður hjá björgunarsveitinni Þorbirni, segir brýnt að fólk haldi sig á merktum stígum. „Það er bara öryggisatriði. Við viljum ekki lenda í því sem gerðist í byrjuninni á síðasta gosi þegar við fengum fólk út um allt og týndum því.“

Ljósmyndari Morgunblaðsins sem var á staðnum í gærkvöldi kveðst hafa séð þó nokkra detta á gönguleiðinni. Á leiðinni að gosinu rakst hann jafnframt á heldur léttklædda Íslendinga. Björgunarsveitin Þorbjörn hefur biðlað til fólks að koma vel búið þar sem gangan geti tekið allt að sex klukkustundir og sé um fjórtán kílómetrar.

Heilt yfir gekk þó vel að stýra umferð fólks um gosstöðvarnar í gær. „Það hefur gengið furðulega vel. Það hefur enginn verið svakalega óþekkur,“ sagði Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, í samtali við mbl.is í gær.

Bjuggust við mikilli mengun

Í gær var varað við mikilli gasmengun í Vogum á Reykjanesskaganum en sú spá rættist ekki. Mengun frá gosinu gæti borist til vesturs í dag og á morgun en ekki er útlit fyrir að mengunin verði mikil.

Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert