Konur eigi það til að dansa þegar þær skemmta sér

„Ég get alveg tengt við þetta. Auðvitað gerum við kröfur …
„Ég get alveg tengt við þetta. Auðvitað gerum við kröfur til lýðræðislegra kjörinna fulltrúa, ég átta mig á því. En það er ekki bannað að vera lífsglaður og skemmta sér.“ mbl.is/Hákon Pálsson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir þá gagnrýni sem Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, hefur hlotið fyrir myndskeið sem láku af henni á djamminu „með algjörum ólíkindum“.

Það endurspegli ákveðið viðhorf sem við lýði sé gagnvart bæði ungu fólki og sér í lagi ungum konum í valdastöðum.

Segir hún konur á þessum aldri „eigi það nefnilega til að dansa þegar þær skemmta sér.“

„Mér hefur þótt þessi aðför gegn henni með algjörum ólíkindum. Að gera kröfu um það að lífsglöð manneskja, sem fær sér í glas með vinkonum sínum, fari í fíkniefnapróf, það finnst mér segja meira um það fólk en hana nokkurn tímann.“

Segist Þórdís vonast til þess að Sanna hafi nægilega breitt bak til þess að líta fram á við og halda áfram. „Finnland hefur staðið sína plikt í mörgum mjög stórum málum með hana í fararbroddi.“

Sanna Marin barðist við tárin í ræðu sinni þar sem …
Sanna Marin barðist við tárin í ræðu sinni þar sem hún varði rétt sinn til einkalífs. AFP

Gæti komið upp hér

Spurð hvort hún telji að svona lagað geti gerst hér á landi svarar hún því játandi.

„Já, ég vona að við séum komin lengra en ég held samt að þetta geti alveg gerst líka hér. Það er ekki eins og djamm eða drykkja stjórnmálamanna hafi verið bönnuð hingað til og ég held að þetta snúist um meðvituð og jafnvel af stórum hluta ómeðvituð viðhorf okkar gagnvart fólki í valdastöðum.

„Ég get alveg tengt við þetta. Auðvitað gerum við kröfur til lýðræðislegra kjörinna fulltrúa, ég átta mig á því. En það er ekki bannað að vera lífsglaður og skemmta sér í fámennum hópi vina í heimahúsi og dansa. Það er bara frekar nauðsynlegt að dansa.“

Geymir hluta af sjálfinu

Gerir fólk ríkari kröfur til kvenna í stjórnmálum?

„Fólk á það til að gera annars konar kröfur til kvenna í valdastöðum heldur en karla. Ungs fólks líka en sérstaklega ungra kvenna. Ég er alveg á því.“

Spurð hvort meðvitað, eða ómeðvitað, hafi hún breytt hegðun sinni eftir að hún hóf sinn pólitíska feril annars vegar og þegar hún varð ráðherra hins vegar svarar Þórdís Kolbrún því játandi.

„Já já, þú leggur alveg til hliðar eða geymir á góðum stað hluta af sjálfinu þínu. Svo getur fólki fundist það bara mjög eðlilegar kröfur. Maður gerir það alveg. Það er margt sem maður myndi leyfa sér að gera ef maður væri ekki í þeirri stöðu sem maður er í.

Segir hún ekki hægt að setja til hliðar húmor, dans …
Segir hún ekki hægt að setja til hliðar húmor, dans og það sem gerir okkur að manneskjum. mbl.is/Unnur Karen

Enn dansar utanríkisráðherra

Það eigi þó við stjórnmálamenn almennt. „Það á ekki eingöngu við um ungar konur í valdastöðum. Svona valdastöðum fylgir ákveðin ábyrgð og meðvitund. En já, það er ýmislegt sem maður gerir ekki. Það fylgir starfinu.

Hún dansi þó enn með æskuvinkonum sínum í heimahúsum. „Ég gat alveg tengt við þetta saklausa vídeó af henni að gleyma stað og stund, leyfa sér að vera glöð, leyfa sér að vera ung og leyfa sér að dansa. Það eiga allir að leyfa sér það.

Húmor, dans og bara það sem fylgir því að vera manneskja. Það er ekkert hægt að setja það til hliðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert