Krefjast afsagnar formanns Prestafélags Íslands

Félag prestvígðra kvenna telur Arnald ekki hæfan til að gæta …
Félag prestvígðra kvenna telur Arnald ekki hæfan til að gæta hagsmuna alls félagsfólks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félag prestvígðra kvenna fer fram á afsögn Arnaldar Bárðarsonar, formanns Prestafélags Íslands (PÍ). Þær telja formanninn vanhæfan til að gæta hagsmuna alls félagsfólks þar sem hann hafi tekið meðvitaða afstöðu með geranda í ofbeldismáli. Þetta kemur fram í ályktun Félags prestvígðra kvenna sem send hefur verið til fjölmiðla.

Er í ályktunninni vísað til viðtals við Arnald á Útvarpi sögu þar sem hann ræddi mál Gunnars Sigurjónssonar, fyrrverandi sóknarprests í Digranes- og Hjallaprestakalli, sem varð uppvís að kynferðislegri og kynbundinni áreitni í garð samstarfskenna, samkvæmt niðurstöðu teymis Þjóðkirkjunnar. Í viðtalinu sagði Arnaldur meðal annars að Gunnar væri sjálfur orðinn þolandi í málinu, en þá hafði niðurstaða teymisins ekki verið gerð opinber.

Séra Arnaldur Bárðarson er formaður Prestafélags Íslands.
Séra Arnaldur Bárðarson er formaður Prestafélags Íslands.

Hafði samband við tvo þolendur

Í ályktunni segir ekki hægt að skilja orð formannsins með öðrum hætti en að hann taki sér stöðu með geranda. Þá hafi Arnaldur einnig sett sig í samband við þolendur í málinu.

„Mikilvægt er að fram komi að formaður PÍ hafði áður en hann fór í þetta viðtal haft samband við tvo þolendur í þeim tilgangi að fá upplýsingar um málið og gera lítið úr trúverðugleika teymisins. Í öðru tilvikinu hélt formaður því fram í samtali við þolanda að honum hefði verið falið f.h. Biskupsstofu að vinna að úrlausn þessa máls sem formaður PÍ.

Staðfest hefur verið að honum var ekki fengið þetta umboð. Einnig tjáði hann öðrum þolandanum að PÍ þyrfti að skiptast í tvær fylkingar í málinu og þolandinn gæti ekki leitað til formannsins þar sem hann hefði þegar tekið afstöðu með gerandanum,“ segir í ályktuninni.

Jafnframt er tekið fram að Félag prestvígðra kvenna lýsi yfir trausti á störf teymisins innan Þjóðkirkjunnar sem fjallar um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreiti og ofbeldi innan kirkjunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert