Líkamsárás á veitingahúsi

Tilkynnt var um líkamsárás á veitingahúsi í hverfi 108.
Tilkynnt var um líkamsárás á veitingahúsi í hverfi 108. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir menn voru handteknir af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna líkamsárásar á veitingahúsi í hverfi 108 í gærkvöldi. Þeir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins en ekki er vitað um áverka þess sem varð fyrir árásinni.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. 

Lögreglu barst útkall í miðbænum klukkan 01:20 þegar að eigandi bifreiðar óskaði eftir aðstoð vegna manns sem hafði farið inn í ökutækið og sofnað í aftursæti. Lögreglumenn vöktu manninn og vísuðu honum út.

Þjófnaður í Breiðholti

Þá var einnig tilkynnt um innbrot í bifreið í Breiðholti fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. Búið var að brjóta rúðu í bifreið þar sem henni var lagt í stæði við fjölbýlishús. Hafði þjófurinn á brott með sér farsíma og hleðslubanka.

Skömmu síðar barst önnur tilkynning um þjófnað í Breiðholti en þá úr verslun. Maður náði að hlaupa út úr verslun með vörur sem hann hafði ekki greitt fyrir. Öryggisvörður elti manninn og náði m.a. af honum þvottaefni. Þá missti maðurinn einnig farsíma sinn er öryggisvörðurinn reyndi að stöðva hann.

mbl.is