Álag á Bjarna: „Virðulegi sjóður“

Uppskar Bjarni hlátrasköll úr þingsal þegar hann sagði „virðulegi sjóður“ …
Uppskar Bjarni hlátrasköll úr þingsal þegar hann sagði „virðulegi sjóður“ í stað þess að segja „virðulegi forseti“ í upphaf andsvar síns við fyrirspurn Eyjólfs Ármannssonar, þingmanns Flokks fólksins. Alþingi

Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra varð á í messunni á Alþingi í dag og ávarpaði Líneik Önnu Sævarsdóttur þingmann Framsóknar sem virðulegan sjóð, þegar nokkuð var liðið á umræður um Íbúðalánasjóð.

Uppskar Bjarni hlátrasköll úr þingsal þegar hann sagði „virðulegi sjóður“ í stað þess að segja „virðulegi forseti“ í upphaf andsvar síns við fyrirspurn Eyjólfs Ármannssonar, þingmanns Flokks fólksins.

Ráðherra spurður spjörunum úr

Umræður um Íbúðalánasjóð hafa staðið yfir síðan þingfundur hófst, klukkan 15.00, og hefur ráðherra vart haft undan því að svara fyrirspurnum um sjóðinn, sem kostar skattgreiðendur 1,5 milljarð mánaðarlega ef fram heldur sem horfir.

„Þessi skuldabréf hafa gengið kaupum og sölum undir þeim formerkjum að á þeim væri einföld ríkisábyrgð,“ sagði Eyjólfur. Nú vildi ráðherra hins vegar koma upp og slíta skuldabréfunum því slíkt væri ódýrara fyrir ríkissjóð.

„Hvernig mun þetta hafa áhrif á lánshæfismat ríkisins þegar það stendur ekki við skuldbindingar sínar?“, spurði Eyjólfur.

Kemur til álita að leggja fram frumvarp til þess að ljúka málinu

Kom þá Bjarni upp í pontu og sagði, eftir að hafa óvart kallað Líneik virðulegan sjóð: „ÍL-sjóður getur ekki staðið við skuldbindingar sínar, það er staðan. Ef sú staða kemur upp reynir á skilmála ríkisábyrgðarinnar,“ svaraði hann. 

Til álita komi að koma með lagafrumvarp sem þyrfti að standast tilteknar kröfur til þess að tryggja gagnsæi um uppgjör til þess að ljúka óvissu sem hvíli yfir málinu. 

„Og fara í fullnaðaruppgjör á öllum kröfum sjóðsins eins og þær þá standa með áföllnum vöxtum. Eftir það standa kröfuhafarnir með fullnaðaruppgjör sem fram fer með þessum hætti við gjaldfellingu, og þurfa eftir það að ávaxta eignir sínar eftir nýjum leiðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert