Sjálfstæðisflokkurinn mun komast yfir innanflokksátök

Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson munu takast á um …
Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson munu takast á um formannsembætti Sjálfstæðisflokkins á landsfundi sem fer fram um næstu helgi. Samsett mynd

Eva Heiða Önnu­dótt­ir stjórn­mála­fræðing­ur seg­ir að hver sem niðurstaðan úr formannskjöri Sjálfstæðisflokksins verði þá muni flokkurinn komast yfir innanflokksátök og að flokkurinn muni ekki klofna. Þá segir hún það vera pólitískan afleik að víkja Guðlaugi úr ráðherrastól ef hann myndi tapa formannsslagnum.

Aðspurð um hvort hún telji að það muni hafa áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið ef Guðlaugur vinnur formannsslaginn segir hún erfitt að spá fyrir um það. Hún segir að yfirlýsing Bjarna Benidiktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, um að hann muni hætta ef hann tapar fyrir Guðlaugi geti haft áhrif. Þá segir hún sýn Guðlaugs til ríkisstjórnarsamstarfsins skipta gríðarlega miklu máli verði hann formaður.

Eva Heiða Önnudóttir doktor í stjórnmálafræði.
Eva Heiða Önnudóttir doktor í stjórnmálafræði. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Það gæti haft áhrif þar sem ef Guðlaugur tekur við forystunni þá er hann orðinn forystumaður Sjálfstæðisflokksins innan ríkisstjórnarinnar. Það vekur upp ákveðnar spurningar. Það gæti líka verið til að minna fólk á að það ætti að halda í þennan stöðugleika sem er núna. Þá skiptir gríðarlega miklu máli hvernig Guðlaugur svarar því hver hans sýn sé á ríkisstjórnarsamstarfið er verði hann formaður,“ segir Eva.

Pólitískur afleikur ef Guðlaugi yrði vikið úr ráðherrastól

Fram hefur komið að Bjarni Benediktsson vilji ekki útiloka að Jón Gunnarsson muni halda áfram sem dómsmálaráðherra eftir 18 mánuði. Hann segist þó standa við að Guðrún Hafsteinsdóttir muni taka við ráðherraembætti þegar 18 mánuðir eru liðnir af kjörtímabilinu og verður því einhver annar ráðherra að víkja. Aðspurð um hvort hún telji að Guðlaugur muni halda ráðherrastól sínum tapi hann formannsslagnum eftir yfirlýsingu Bjarna segist hún telja það vera pólitískan afleik ef Guðlaugi yrði vikið úr ráðherrastól.

„Það yrði mjög umdeilt og mjög erfitt. Segjum sem svo að það hefði ekki komið til þessa formannsslags þá myndi ég telja að það hefði verið nær útilokað. Guðlaugur Þór er með það sterkt bakland í flokknum að ég tel að það gæti verið pólitískur afleikur að víkja honum sem ráðherra hvort sem hann hafi farið í formannsslaginn eða ekki,“ segir Eva.

Sjálfstæðisflokkurinn mun komast yfir innanflokksátök

Hún segir að hver sem niðurstaðan verði í formannskjörinu muni Sjálfstæðisflokkurinn komast yfir það. Þetta gæti þó haft skapað togstreitu og núning á milli persónulegra leikenda.

„Hver sem niðurstaðan verður úr þessu formannskjöri þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn sýnt það hingað til að hann kemst yfir það þegar það koma upp svona alvarleg innanflokksátök. Ég myndi ekki halda, miðað við það sem hefur komið fram, að þetta muni hafa skaðleg áhrif á flokkinn þótt það geti auðvitað skapast togstreita, núningur eða kuldi á milli persónulegra leikenda. En flokkurinn sjálfur mun alveg haldast saman. Ég treysti mér til þess að staðfesta það að þetta muni ekki kljúfa flokkinn,“ segir Eva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert