Skrásetningargjald ætti að vera hærra

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir aðspurður að skrásetningargjaldið …
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir aðspurður að skrásetningargjaldið ætti að vera hærra en það er nú. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, telur að skrásetningargjald sem nemendur greiða eigi að vera hærra. Stúdentaráð háskólans hefur dregið lögmæti gjaldsins í efa og telur það fela í sér falin skólagjöld.

„Ef gjaldið væri vísitölutengt þá væri það hærra,“ segir Jón Atli í samtali við mbl.is og bætir við að það væri 95.000 krónur í dag, samkvæmt þeim kostnaðarliðum sem lagðir eru til grundvallar. Gjaldið hefur verið 75.000 krónur í nokkur ár.

Ekki sammála því að gjaldið svipi til skólagjalda

Gjaldið má ekki fara í kennslu samkvæmt lögum en einn kostnaðarliða er prófahald, skipulag kennslu og rekstur kennslusviðs.

Geturðu tekið undir með Stúdentaráði, að þetta gjald svipi til skólagjalda?

„Ég er ekki á því. Það er alveg ljóst að háskólinn þarf á þessum fjármunum að gjalda. Það eru ýmsar hliðar á því að ræða skrásetningargjaldið, hvort það eigi að vera eður ei. Það hefur til dæmis verið bent á það að það er dýrara að fara í leikskóla heldur en að fara í háskóla.“

Þjónustan hafi aukist

„Það er mikil þjónusta sem háskólinn er að bjóða upp á. Hún hefur aukist á undanförnum árum. Ef við ætlum að halda þessari framþróun áfram þurfum við að fá stuðning,“ segir Jón Atli. 

Tekur hann fram að kostnaður á bakvið skrásetningargjaldið sé hærri nú en árið 2015 en í úrskurði háskólaráðs var stuðst við upphæðir síðan þá, til grundvallar skrásetningargjaldsins. Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema komst að því nýverið að ekki hefði verið rétt að styðjast við tölur frá árinu 2015.

mbl.is