Efling með tilboð um kjarasamning til eins árs

Saminganefnd Eflingar.
Saminganefnd Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samninganefnd Eflingar - stéttarfélags hefur samþykkt að gera Samtökum atvinnulífsins, SA, tilboð um kjarasamning til rúmlega árs.

Tilboðið snýst um 56.700 króna flata krónutöluhækkun á öll laun og 15.000 kr. framfærsluuppbót til viðbótar. Þessar hækkanir komi til framkvæmda frá 1. nóvember 2022. Samningurinn gildi til 31. janúar 2024, að því er kemur fram í tilkynningu frá Eflingu.

„Með þessu kemur Efling til móts við kröfur um skammtíma kjarasamning sem komið hafa frá öðrum verkalýðsfélögum, ríkisstjórninni og SA. Hækkanir í tilboðinu eru áþekkar því sem gera hefði mátt ráð fyrir á fyrsta ári í þriggja ára samningi, sem krafist var í upphaflegri kröfugerð,“ segir í tilkynningunni.

„Að mati samninganefndar Eflingar þurfa umsamdar hækkanir að verja heimili láglauna- og meðaltekjufólks fyrir áhrifum verðbólgunnar og tryggja þeim eðlilega hlutdeild í hagvexti og fádæma góðri afkomu fyrirtækjanna. Gildir þar einu hvort samið er til skamms eða langs tíma.

Samninganefnd Eflingar telur önnur stéttarfélög hafa gert mistök með því að fallast á aðferðafræði prósentuhækkana í viðræðum við SA. Tillögur hafa verið til umræðu þar sem gert er ráð fyrir tvöfalt meiri hækkunum til hátekjuhópa en til láglaunafólks.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í tilkynningunni að allir séu sammála um að ofþensla og ofneysla í hærri helmingi launastigans séu eitt helsta vandamálið í íslensku efnahagslífi.

„Seðlabankinn hefur gripið til hóprefsinga gegn allri þjóðinni í formi stýrivaxtahækkana með vísan til þessarar stöðu. Í þessu samhengi er það augljós fjarstæða að ræða um að hálaunafólk eigi að fá tvöfaldar hækkanir á við láglaunafólk,” segir Sólveig Anna.

„Það er hins vegar mögulegt að laga sig að kröfum um skammtímasamning. Tilboð okkar er skammtíma útfærsla á skynsamri og vel rökstuddri kröfugerð samninganefndar Eflingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert