Furðar sig á að banna skuli Salem og bláan Capri

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir frumvarp heilbrigðisráðherra um tóbaksvarnir.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir frumvarp heilbrigðisráðherra um tóbaksvarnir. mbl.is/Golli

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að stjórnvöld hyggist nú taka mentolsígarettur frá tæplega fjórðungi íslensks reykingafólks, með frumvarpi heilbrigðisráðherra um tóbaksvarnir.

Þar er lagt bann við tóbaksvörum með bragðbætandi efnum sem eru talin höfða til barna, á grundvelli tóbakstilskipunar 2014/40 frá Evrópusambandinu.

„Hér er komið frumvarp sem ætlar að banna Salem og Capri bláan,“ sagði Hildur í umræðu um frumvarpið í ræðustól á Alþingi í gær. 

„Blessuð börnin í forgrunni“

„Í rökstuðningnum eru blessuð börnin í forgrunni sem væri gott og blessað og sjálfsagt ef hægt væri að færa rök fyrir að að Salem, Capri blár og aðrar mentolsígarettur hefðu einhverntímann gert börnum eitthvað umfram aðrar sígarettutegunir en svo er einfaldlega ekki,“ sagði Hildur.

Rökstuðningurinn í frumvarpinu væri vægast sagt rýr en þar væri eingöngu vísað til þess að líkur séu á að tóbaksneysla hefjist ef tóbaksvörur hefðu einkennandi eða bragðbætandi bragð.

Dóra Dórudóttir og Jónína Jónínudóttir verði fyrir barðinu á lögunum

„Afleiðingar af þessu frumvarpi eru ekki að bannaðar verði í stórum stíl jarðaberja- eða súkkulaðisígarettur, sem væri vel skiljanlegt að væru girnilegri börnum en æskilegt væri. Nei, það er verið að banna mentolsígarettur,“ sagði hún, sem tæplega fjórðungur reykingarfólks á Íslandi kjósi að reykja umfram aðrar tegundir.

„Mentolsígarettur sem er ekki nokkur samstaða er um meðal reykingafólks að séu eitthvað bragðbetri en aðrar tegundir. Enda ekki nokkur einasti einstaklingur sem ég veit um sem byrjaði að reykja vegna þess að í boði voru mentolsígarettur. Nei, það eru ekki unglingarnir sem eru að flykkjast til þess að eiga gæðastundir með mentholsígarettunum. Það eru Jónína Jónínudóttir og Dóra Dórudóttir sem fara út á svalir í sínum gæðastundum hjá saumaklúbbnum, með Capri bláum,“ segir Hildur og bætir við:

„Við ætlum hér að taka það frá þeim og fjórðungi reykingafólks á Íslandi með litlum eða engum rökstuðningi,“ sagði hún og bætti við að trúlega hefði enginn embættismaður sem kom að smíð laganna bragðað mentolsígarettur en hún reyki þær þó ekki sjálf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert