Fleiri snjóruðningstæki að störfum í dag

Um 20 vélar eru nú að störfum á götum borgarinnar.
Um 20 vélar eru nú að störfum á götum borgarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Fleiri snjóruðningstæki eru nú að störfum í Reykjavík en áður og er betri gangur í snjóhreinsuninni fyrir vikið, að sögn einingarstjóra vetrarþjónustunnar. Í heildina eru um 20 vélar á götum borgarinnar og 13 á gangstéttum.

„Það eru bæði fleiri verktakar og vélar sem náðust út. Þetta hittisst illa á fyrir okkur. Það var helgi og þetta var meiri snjór heldur en flestir bjuggust við. Það bjuggust náttúrlega allir við snjó en ekki svona miklu magni,“ segir Eiður Fannar Erlendsson, ein­ing­ar­stjóri vetr­arþjón­ustu hjá Reykja­vík­ur­borg, í samtali við mbl.is.

„Við erum búin að ná meira púðri í þetta og ég vona að fólk sjái merki þess því þetta er náttúrlega ofboðslega erfitt eins og þetta er. Það er rosalega treg færðin fyrir minni bíla og erfitt um vik hérna í efri byggðum.“

Skiljanlegt að einhverjir séu langeygðir

Í tilkynningu frá borginni í morgun kom fram að það tæki allt að fimm daga að hreinsa snjó úr húsagötum. Að sögn Eiðs gengur sú vinna ágætlega um þessar mundir miðað við magnið af snjó sem þar hefur safnast upp. 

„Það er verkefni sem tekur tíma og það er skiljanlegt að einhverjir séu langeygðir eftir að fá að sjá tæki í götunni sinni.“

Bílar sem sátu fastir í snjósköflum heftu för ruðningstækja um helgina og gerðu það að verkum að erfiðlega gekk að komast um sumar götur. Aðspurður segir Eiður að ágætlega hafi tekist að leysa úr þeim vanda. 

„Það er ekki vandamál lengur. Það er í rauninni ekki að tefja okkur neitt núna sem heitið getur.“

Snjóruðningstæki breikka vegi í nótt

Það eru þó ekki eingöngu húsagötur sem ökumenn hafa lent í vandræðum með að keyra þar sem enn er snjór á stofngötum og öðrum götum í borginni. Að sögn Eiðs verða send út snjóruðningstæki í nótt þegar umferð er minni til að ryðja og breikka þær götur enn frekar til gera fólki auðveldara að komast um.

Í dag og á morgun verður gul viðvörun í gildi vegna illviðris um allt land. Eiður segir að vindasamt hafi verið í borginni og á Kjalarnesi í dag.

„Efri byggðirnar eru í skjóli frá Esjunni sem hjálpar okkur mikið. Það tekur ekki upp snjó og það skefur ekki í þetta. Ég er hræddur um að það hefði sett strik í reikninginn hjá okkur ef það hefði tekið upp snjó og byrjað að skafa eitthvað í það sem að við vorum búnir að moka. Það hefði þá ýtt okkur á byrjunarreit aftur. Nú er bara að vona að það gerist ekki og að vindurinn gangi yfir í nótt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert