Mælir með að leggja af stað í kvöld

Öruggara er að leggja af stað í kvöld, en að …
Öruggara er að leggja af stað í kvöld, en að bíða til morguns, hafi fólk í hyggju að færa sig milli landshluta fyrir jólin. mbl.is/Kristinn Magnússon

Öruggara er að leggja af stað í kvöld, en að bíða til morguns, hafi fólk í hyggju að færa sig milli landshluta fyrir jólin, að sögn Birgis Arnar Höskuldssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

„Ég mæli með því, ef fólk hefur tök á, því það eru líkur á að færð spillist á morgun á Suðurlandi, Suðausturlandi og jafnvel Vesturlandi.“

Ótrygg staða

Birgir segir að staðan sé ótrygg og því ekki forsendur til að gefa út veðurviðvaranir. Engu að síður séu bæði lögreglan og Vegagerðin meðvituð um að það kunni að verða ófært á morgun, einkum á Suðurlandi og Suðausturlandi, en viðbúið er að loka þurfi Hellisheiði.

Spár gera ráð fyrir snjó á Reykjanesbraut í fyrramálið og fram eftir degi, en það er vandkvæðum bundið að átta sig á því hvort snjókoman verði nægilega mikil til að spilla þar færð, að sögn Birgis.  

Það eru líkur á snjókomu á sunnan- og vestanverðu landinu. Mesti snjórinn verður á Suðurlandi og Suðausturlandi. Gera má ráð fyrir hóflegri snjókomu á höfuðborgarsvæðinu. 

Ekki „brjálað veður“ en snjóþungt

„Það verður ekki brjálað veður en það getur orðið snjóþungt og það þarf minna til þegar við erum komin með svona mikinn snjó nú þegar.“

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að björgunarsveitir séu alltaf í viðbragðsstöðu. Þá sé það svæðisbundið hvort einstaka sveitir geri sérstakar ráðstafanir vegna spárinnar, en ekki hefur verið gripið til sérstaks undirbúnings fyrir morgundaginn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert