Búast við erfiðum akstursskilyrðum í dag

Úr vegsjá við Þrengslavegamót klukkan 09.35 í morgun.
Úr vegsjá við Þrengslavegamót klukkan 09.35 í morgun. Vegsjá/Vegagerðin

Ökumenn eru hvattir til að skoða færð á vegum áður en þeir leggja af stað í löng ferðalög í dag. Það snjóar nú á Suðurlandi þar sem gul viðvörun vegna veðurs tók gildi klukkan níu í morgun. Búist er við að snjókoman verði nokkuð drjúg í dag í landshlutanum þar sem strekkingsvindur er og gæti orðið all hvasst í kvöld.

„Þannig að það skefur líka svo það er viðbúið að færð geti spillst,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að búast megi við blindu og erfiðum akstursskilyrðum í dag og er sérstaklega varað við færð á heiðum, t.d. á Hellisheiði og í Þrengslum.

Þá kemur fram að hálkublettir séu á flestum leiðum á Suðvesturlandi en hálka á stöku stað. Er fólk hvatt til að vera ekki á ferðinni á Suðurlandi nema á vel útbúnum bíl. 

Minni úrkoma í öðrum landshlutum í dag

Mun minni úrkoma verður í öðrum landshlutum en að sögn Haralds verður sennilega lítilsháttar snjókoma á Vesturlandi. Þá verður líklega þurrt á Norðaustur- og Austurlandi.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að ekkert ferðaveður sé á sunnanverðum Vestfjörðum vegna blindu og slæmra akstursskilyrða. Ófært sé á Hálfdán, þungfært í Mikladal og Kleifaheiði og þæfingsfærð á Gemlufallsheiði og í Súgandafirði. 

Á Norður- og Austurlandi eru snjóþekja, hálka eða hálkublettir á flestum leiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka