Komast ekki að týndu göngufólki í vitlausu veðri

Frá útkalli björgunarsveita fyrr í mánuðinum.
Frá útkalli björgunarsveita fyrr í mánuðinum. Ljósmynd/Landsbjörg

Að minnsta kosti tveir gönguhópar rata ekki til baka að hótelum sínum í vitlausu veðri á Suðurlandi.

Björgunarsveitir komast ekki að hótelunum til þess að hefja leit að fólkinu.

„Það er vitlaust veður austur í Mýrdal og það er mikið af föstum bílum,“ segir Jón Hermannsson í samtali við mbl.is, en hann stýrir aðgerðum.

„Það er fólk sem hefur farið í gönguferðir frá hótelum og ratar ekki til baka og við komum ekki einu sinni björgunarsveitartækjum að þessum hótelum til þess að fara að leita út frá hótelunum.“

Kalla til fleiri snjóbíla og meira björgunarlið

Jón segir að miklar annir séu hjá björgunarsveitum á svæðinu.

„Við erum alla vega með tvo hópa sem ekki rata til baka á hótelin eftir gönguferðirnar í nágrenni hótelanna. Svo erum við með fullt af fólki sem bíður í bílunum eftir að við getum dröslað því í einhverja gististaði,“ segir Jón.

Þrátt fyrir að fjöldi breyttra bíla sé þegar í björgunaraðgerðum sé verið að kalla til fleiri snjóbíla og meira björgunarlið til að aðstoða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert