Reyna að koma sextíu manns í skjól

Frá snjómokstri í Reynishverfi. Mynd úr safni.
Frá snjómokstri í Reynishverfi. Mynd úr safni.

Unnið er að því að koma í skjól um 50 strandaglópum við Gatnabrún, þ.e. við afleggjarann að Reynisfjöru, og 10 við Pétursey.

Annasamt hefur verið hjá björgunarsveitum á Suðurlandi í dag, sérstaklega frá Pétursey og austur í Vík.

Virtu tilmæli að vettugi

„Stóra vandamálið er að fólk var að fara framhjá lokunarpóstum og virða að vettugi tilmæli björgunarsveitarfólks sem var á lokunarpóstum,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Hann segir „þreifandi byl“ vera á svæðinu og verið sé að bjarga því fólki sem virti lokanir að vettugi fyrr í dag og lenti í vandræðum í kjölfarið.

„Vonandi fer að sjá fyrir endann á því,“ segir Jón Þór.

Björgunarfólk sá ekki hvort það var á þjóðveginum

„Lögreglan hefur mannað einhverja lokunarpósta núna til þess að gefa þeim meiri vigt,“ segir Jón Þór. 

Hann segir að verið sé að flytja björgunartæki austur því veðrið verði „snælduvitlaust í nótt og eitthvað fram á daginn undir Eyjafjöllum og austur í Mýrdal og aftur austur á Höfn“.

Hann segir aðstæður hafa verið mjög erfiðar í dag.

„Björgunarfólk átti í erfiðleikum með að átta sig á hvort það var á þjóðveginum eða ekki, það var það blint.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert