„Gam­an að vera treyst fyr­ir þessu“

Egill Ólafsson og Ólafur Darri Ólafsson í auglýsingu Toyota. Ólafur …
Egill Ólafsson og Ólafur Darri Ólafsson í auglýsingu Toyota. Ólafur Darri hefur nú tekið við af Agli sem rödd fyrirtækisins.

Egill Ólafsson hætti um áramótin að lesa inn á útvarps- og sjónvarpsauglýsingar fyrir Toyota. Það hefur hann gert óslitið frá árinu 1992. Við starfi hans tekur Ólafur Darri Ólafsson leikari.

Í auglýsingu sem sýnd var í sjónvarpinu skömmu fyrir Áramótaskaupið í gærkvöldi birtust þeir báðir. Ekkert var sagt en skilaboðin voru skýr; Egill kvaddi og og Ólafur Darri tók við.

Líklega hafa fáir hér á landi sinnt starfi sem þessu fyrir sama fyrirtækið í jafn langan tíma. Í hugum margra er rödd Egils fyrir löngu orðin órjúfanlegur hluti ímyndar Toyota eftir árin þrjátíu.

Samkvæmt upplýsingum frá Toyota var vandað vel til verksins við vali á arftaka Egils enda stór spor að fylla. Fjöldi kven- og karlradda var mátaður við hlutverkið en valið var á endanum auðvelt. Hinn vinsæli og kunni Ólafur Darri tekur við. 

„Það er gaman að vera treyst fyrir þessu,“ segir Ólafur Darri í samtali við mbl.is. Rætt er við þá Egil og Ólaf Darra í Morgunblaðinu á morgun. 

Það voru þeir Samúel Bjarki Pétursson og Gunnar Páll Ólafsson sem leikstýrðu umræddri tímamóta-auglýsingu Toyota og hún er framleidd af Skot Productions.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert