„Ferðalag prestsins var nokkuð langt“

Faðir Lavrentiy kom frá Úkraínu til að þjóna í jólamessunum.
Faðir Lavrentiy kom frá Úkraínu til að þjóna í jólamessunum.

Hátíðarjólaguðsþjónusta að hætti úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunnar verður sungin í Hallgrímskirkju í Reykjavík í dag klukkan 18.00.

Á morgun 7. janúar klukkan 10.00 verður jólamessa samkvæmt helgisiðum úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunnar. Þá verður kirkjugestum boðið að ganga til altaris. Báðar athafnirnar fara fram á úkraínsku.

Faðir Lavrentiy, munkur og prestur í klaustri Heilags Mikaels í Kyiv, heimsækir Reykjavík af þessu tilefni og þjónar við guðsþjónusturnar. Auk hefðbundins messusöngs verða sungin úkraínsk jólalög og Alexandra Chernyshova sópransöngkona syngur einsöng.

„Messurnar eru ætlaðar fyrir úkraínska flóttamenn sem eru fjölmargir hér á landi. Þær eru þó öllum opnar,“ segir Birgir Þórarinsson alþingismaður sem átti frumkvæði að þessu helgihaldi.

Hann segir að um sé að ræða fallegan merkisatburð og að jólamessa að hætti rétttrúnaðarkirkjunnar hafi ekki verið áður sungin í Hallgrímskirkju.

„Ferðalag prestsins var nokkuð langt. Hann tók lest frá Kyiv til Lviv. Síðan rútu frá Lviv til Varsjár og flug þaðan til Íslands. Ferðalagið tók rúma 24 tíma. Þetta snýst fyrst og fremst um að gefa úkraínskum flóttamönnum kost á að sækja messu á jólum á sínu tungumáli, eftir sínum hefðum og eins og heima væri,“ segir Birgir. 

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert