„Mælirinn orðinn fullur“

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður verka­lýðsfé­lags­ins Fram­sýn­ar.
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður verka­lýðsfé­lags­ins Fram­sýn­ar. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður verka­lýðsfé­lags­ins Fram­sýn­ar og stjórnarmaður í Starfsgreinasambandinu, hvetur Eflingarfólk til þess að snúa sér að eigin kjarabaráttu og hætta að draga hans fólk niður í svaðið.

Hann segir skammarlegt fyrir stéttarfélag í Reykjavík að ala á klofningi milli verkafólks á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni og að nú sé mælirinn einfaldlega orðinn fullur. 

„Ég get alveg viðurkennt það að mér og mörgum innan hreyfingarinnar hefur orðið ansi heitt í hamsi yfir þessum endalausa áróðri. Í gegnum allt okkar samningsferli voru þeir að reyna að koma í veg fyrir samninga sem við unnum að fyrir okkar félagsfólk,“ segir Aðalsteinn.

Rangt að framfærslukostnaður sé hærri á höfuðborgarsvæðinu

Aðal­steinn bend­ir á að það sé einfaldlega rangt að framfærslukostnaður sé hærri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Hann nefnir m.a. kostnað við að sækja heilbrigðisþjónustu, bensínkostnað auk aðgangs að lágvöruverslunum.

„Það liggur fyrir að laun eru almennt miklu hærri á höfuðborgarsvæðinu. Við getum horft á kostnað við heilbrigðisþjónustu þar sem við þurfum í mörgum tilvikum að fara suður til Reykjavíkur með tilheyrandi kostnaði sem hið opinbera tekur lítinn þátt í. Bensínverð er miklu hærra á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu auk þess sem ungt fólk þarf oft á tíðum að sækja nám suður með tilheyrandi kostnaði.

Þess utan þarf fólk sem býr t.d. aðeins austan við Húsavík á Kópaskeri, Raufarhöfn og Bakkafirði, Vopnafirði og um alla Vestfirði og víða á Austurlandi að keyra mörg hundruð kílómetra til að komast í lágvöruverslanir en því fylgir tilheyrandi bensínkostnaður og vinnutap,“ segir Aðalsteinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert