Eigið þér að fara einir á mótið?

Friðrik Ólafsson fékk höfðinglegar móttökur við heimkomuna eftir að hafa …
Friðrik Ólafsson fékk höfðinglegar móttökur við heimkomuna eftir að hafa farið með sigur af hólmi á alþjóðlegu móti í Hastings 1959. Ólafur K. Magnússon

Þegar Friðrik Ólafsson var á leið á áskorendamótið í skák í Júgóslavíu árið 1959 var pyngja Skáksambandsins með léttasta móti, þannig að ekki var útlit fyrir að unnt yrði að senda aðstoðarmann, hvað þá aðstoðarmenn, með honum út. Þetta var auðvitað mjög bagalegt í svona sterku móti þar sem þátttakendur allir voru í hópi sterkustu skákmanna heims og börðust um réttinn til að skora heimsmeistarann á hólm. Áhugasömum skákunnanda úti í bæ ofbauð þetta og sló á þráðinn til Ólafs Thors forsætisráðherra og spurði beint út hvort honum þætti þetta í lagi. Það varð til þess að forsætisráðherra tók upp símann og hringdi í skákmanninn unga. Friðrik man samtal þeirra með þessum hætti:

„Ólafur, sem sjálfur var mikill áhugamaður um skák og einn af stofnendum Taflfélags Reykjavíkur, þéraði mig út í gegn. „Er þetta rétt, Friðrik, að þér eigið að fara einir á mótið?“ spurði hann. Já, það er ekkert til í kassanum. Ólafur hugsaði sig um stutta stund en sagði svo glettinn í bragði eins og hans var vandi: „Ef hægt er að senda mann alla leið til Ástralíu til að hoppa þar eins og kengúra þá getur það ekki verið neitt stórmál að senda mann til Júgóslavíu.““

Ólafur Thors forsætisráðherra.
Ólafur Thors forsætisráðherra. Ólafur K. Magnússon


Þarna var Ólafur vitaskuld að vísa í frægðarför Vilhjálms Einarssonar þrístökkvara á Ólympíuleikana í Melbourne 1956. Ekki þarf að orðlengja að úr málinu leystist farsællega eftir að Ólafur Thors hóf afskipti af því og aðstoðarmennirnir urðu að lokum tveir.

Þetta er ein af sögunum í heimildarmyndinni Stórmeistaranum eftir Jón Þór Hannesson sem sýnd verður í tvennu lagi í Ríkissjónvarpinu, í kvöld og sunnudagskvöldið eftir viku.

Sjálfur sá Friðrik myndina í fyrsta sinn í vikunni og leist vel á. „Það er farið vítt og breitt yfir sviðið og ekki einblínt algerlega á mig og mína persónu. Um leið og ferill minn er rakinn er minnst á atburði líðandi stundar,“ segir hann.

Friðrik segir Jón Þór hafa átt frumkvæðið að gerð myndarinnar. „Hann sagðist vera búinn að ganga lengi með þessa hugmynd í maganum og ég var ekkert að reyna að fá hann ofan af því,“ segir hann sposkur. „Sjálfur hafði ég gaman af þessu verkefni og er þakklátur fyrir að hann skuli sýna mér þessa velvild og virðingu.“

Nánar er rætt við Friðrik í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert