Hafnarfjörður greiðir heim og styrkir dagforeldra

Hafnarfjörður mun nú bjóða upp á heimgreiðslur til foreldra barna, frá 12 mánaða aldri. Einnig verður veittur stofnstyrkur til dagforeldra og hækkun á niðurgreiðslu til dagforeldra, sem endurspeglast í nýjum heimgreiðslum.

Var þetta nýverið samþykkt á fundi bæjarstjórnar, og tóku breytingarnar gildi afturvirkt, frá og með 1. janúar 2023.

Markmiðið með þessu er að skapa ný tækifæri og auka valmöguleika foreldra. Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að nú verði foreldrum gefið tækifæri til að vera lengur heima. Samhliða því sé stuðlað að fjölgun í mikilvægum hópi dagforeldra.

„Auknir valmöguleikar þegar kemur að dagvistun barna skiptir máli.“

Brúa bilið frá fæðingarorlofi til leikskóla

Frá og með 1. janúar 2023 geta foreldrar barna í Hafnarfirði sem náð hafa 12 mánaða aldri sótt um heimgreiðslur sem nema sömu upphæð og almenn niðurgreiðsla með börnum hjá dagforeldri.

Með þessu er komið til móts við óskir foreldra um fleiri leiðir til að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn hefur skólagöngu í leikskóla.

Samhliða telur bæjarfélagið þörf á að fjölga leiðum og lausnum sem miða að því að skapa fjölbreytt og raunverulegt val fyrir nýbakaða foreldra, svo sem lenging á fæðingarorlofi og enn frekari sveigjanleika leikskóladvalar og dagforeldrakerfis, en í dag eru alls 26 dagforeldrar starfandi í Hafnafirði.

Vilja fjölga dagforeldrum

„Dagforeldrar eru mikilvægur burðarstólpi í dagvistunarflórunni og vill Hafnarfjarðarbær með aðgerðum sínum meðal annars fjölga í þeirra hópi.„

Spurn eftir þjónustu dagforeldra er mikil og í tilkynningunni segir að ljóst sé að ákveðinn hópur barna uni sér vel og stundum betur í smærri hópum og í heimilislegum aðstæðum.

Dagforeldrar sem starfað hafa hjá bæjarfélaginu í 12 mánuði og hafa fullgilt starfsleyfi geta, frá og með 1. janúar 2023, sótt um stofnstyrk að upphæð 300 þúsund krónur.

Samhliða hækkaði greiðsla til handa dagforeldrum vegna dvalar barna úr 8.433 krónum í 12.800 krónur á dvalarstund.

Komið til móts við barnmarga og tekjulægri

Tekjulægri foreldrar eða forsjáraðilar geta sótt um viðbótarniðurgreiðslu á gildandi gjaldskrá. Systkinaafsláttur fæst svo þegar systkini eru samtímis hjá dagforeldri, í leikskóla eða í frístund og fær annað barn 75 prósenta afslátt og þriðja 100 prósent.

Dagforeldrar í Hafnarfirði eru sjálfstætt starfandi en fá starfsleyfi frá sínu sveitarfélagi samkvæmt ákveðnum skilyrðum. Daggæslufulltrúi Hafnarfjarðarbæjar hefur umsjón og eftirlit með starfsemi dagforeldra auk þess að veita þeim faglega ráðgjöf frá degi til dags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert