Enn miklar tafir á sorphirðu

Víða hafa bláar tunnur fyllst vegna tafa í sorphirðu.
Víða hafa bláar tunnur fyllst vegna tafa í sorphirðu. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Enn eru miklar tafir á sorphirðu endurvinnsluefna í Reykjavíkurborg að sögn Vals Sigurðssonar, rekstr­ar­stjóra sorp­hirðu hjá borginni. 

„Pappírinn og plastið er enn þá svona viku á eftir áætlun, sex til sjö daga,“ segir hann í samtali við mbl.is en í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar segir að verið sé að vinna í hverfum 104, 105 og 108. Valur nefnir að almennt sorp sé þó á áætlun. 

Hann segir að einnig séu tafir hjá verktökum í að tæma grenndargámana. 

„Þetta er auðvitað vesen fyrir okkur og þá þegar báðir aðilar eru eftir á. Þetta helst svolítið í hendur af því að auðvitað fyllast grenndargámarnir þegar að við erum í basli.“

Grenndargámarnir í Laugardalnum eru flestir yfirfullir.
Grenndargámarnir í Laugardalnum eru flestir yfirfullir. mbl.is/Anton

Næsta vika lítur betur út

Valur nefnir að það taki langan tíma að vinna upp þær tafir sem urðu fyrir jól vegna snjókomu. Þá sé einnig aukið magn af sorpi vegna til dæmis jólapappírs.

„Við munum vera viku eftir á í einhvern tíma,“ segir hann og bætir við að starfsmenn hafi unnið hörðum höndum og tekið að sér aukavinnu frá því fyrir jól til þess að ná í skottið á töfunum. 

„Við vinnum líklega á laugardaginn. Þá er það aukadagur þar sem við getum verið jafnvel bara að taka pappír og plast. Þá vinnst þetta ansi hratt upp.“ 

Valur segir því að eftir þessa viku muni sorphirðan í borginni vonandi líta betur út.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert