Skoðuðu hátt í 700 ljósmyndir

Leitin að Modestas hefur staðið yfir frá þriðjudeginum í síðustu …
Leitin að Modestas hefur staðið yfir frá þriðjudeginum í síðustu viku. Samsett mynd

Enn hefur ekkert spurst til Modestas Ant­ana­vicius, 46 ára Borgnesings, sem hvarf fyrir rúmri viku síðan. Rannsókn síðustu daga hefur ekki skilað frekari vísbendingum og biðlar lögregla enn til íbúa á svæðinu að hafa augun opin.

„Við erum að bíða eftir því að fá eitthvað í hendurnar,“ segir Ásmundur Kr. Ásmundsson, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn lög­regl­unn­ar á Vest­ur­landi. 

Síðustu upplýsingar um ferðir Modestas var að finna í eftirlitsmyndavélum Olís í Borgarnesi en hann sást fara þar inn klukkan 17.09 laugardaginn 7. janúar, og út nokkrum mínútum síðar.

Stórt leitarsvæði

Leitin að Modestas mun halda áfram næstu daga en verður þó ekki eins fjölmenn og á laugardaginn þegar á annað hundrað björgunarsveitarmanna víðs vegar af landinu tóku þátt. 

Drónar, bátar og leitarhundar hafa m.a. komið við sögu í leitinni sem hefur hingað til ekki borið neinn árangur. Í gær fór lögreglan yfir myndefni úr drónum og skoðaði hátt í 700 ljósmyndir.

Lögreglan leitar enn í Borgarnesi og nágrenni og er svæðið nokkuð víðfeðmt. Eru íbúar í nágrenninu og sumarbústaðaeigendur beðnir um að hafa augun opin.

„Hann spannar einhverja tugi kílómetra, hringurinn, út frá heimili viðkomandi,“ segir Ásmundur. „En þetta er allt kortlagt, við vitum nákvæmlega hvað við erum búnir að fara yfir.“

Leitarhundar sýndu svæði áhuga

Kafarar frá sérsveit ríkislögreglustjóra mættu á laugardaginn en snjór og klaki gerðu þeim erfitt fyrir. 

„Þeir gátu ekkert kafað, það var svo mikill ís. Við vorum með 14 hunda og einhverjir fjórir höfðu sýnt ákveðnum stað þarna mikinn áhuga. Kafararnir fóru í búnað en voru bara á göngu á ísnum. Það kom því ekkert út úr því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert