Fólk á að hrósa sér meira

Einkaþjálfarinn og markþjálfinn Anna Claessen mælir með að fólk taki …
Einkaþjálfarinn og markþjálfinn Anna Claessen mælir með að fólk taki einn dag í einu í átt til betri heilsu. mbl.is/Ásdís

Einkaþjálfarinn, markþjálfinn og nýbakaða móðirin Anna Claessen hefur komið víða við í lífinu en flestallt sem hún gerir snýr að heilsu og heilbrigði.

Hún hefur mikla reynslu að baki og veit fátt betra en að hjálpa öðrum að ná markmiðum sínum.

Kulnun og endurskoðun

Anna hefur reynt það á eigin skinni að fara fram úr sér og endaði í kulnun.

„Það var hræðilegt. Ég hef lent í þunglyndi og kvíða en þegar ég lenti í kulnum komst ég ekki fram úr rúminu, hafði enga orku og upplifði svakalegt minnisleysi. Svefninn fór í rugl og mér fannst ég ekki geta neitt; allt var svo erfitt. Þetta var orðið svo slæmt að ég leitaði mér hjálpar, fyrst hjá heimilslækni og síðar fór ég bæði í VIRK og Hugarafl en það var frábært til að öðlast andlegan styrk,“ segir Anna og segir það hafa tekið langan tíma að finna aftur jafnvægi í lífinu.

„Eftir það fór ég í einkaþjálfaraskólann. Eftir að ég lauk því námi fór dagskráin mín fljótlega aftur að fyllast um of þannig ég hægði á mér aftur og er nú með vellíðunarstúdíóið Happy Studio þar sem ég og besti vinur minn, Friðrik Agni, bjóðum upp á einkaþjálfun, danskennslu, skemmtanir og ráðgjöf,“ segir Anna.

„Við erum með námskeið á netinu og einnig er hægt að vera með mánaðarlega áskrift þar sem fólk fær aðgang að ýmsum námskeiðum. Fólk þarf að mæta sér þar sem það er. Það er ekki nóg að segja fólki bara að fara fram úr rúminu og fara í göngutúr.“

Njóttu vegferðarinnar

„Hvaða litla skref er hægt að taka í átt til betri heilsu?“ spyr Anna og segir fólk eigi alls ekki að hugsa um ræktina sem refsingu, heldur frekar njóta hennar.

„Fólk á frekar að líta á tímann í ræktinni sem sinn einkatíma; tíma frá fjölskyldunni og vinnunni. Best er að fólk velji sér eitthvað sem því þykir skemmtilegt sem hægt er að tengja við vellíðan.“

Hvaða ráð viltu gefa fólki sem vill byrja nýja árið á breytingum til þess að öðlast betri heilsu?

„Spurðu þig hvað þig langi til að gera til að bæta heilsuna og hvaða leiðir þú vilt velja. Ekki gera of mikið í einu. Síðan skaltu alltaf klappa þér á bakið þó skrefin séu lítil og ekki refsa þér. Taktu einn dag í einu. Sýndu þér sjálfsmildi og njóttu vegferðarinnar.“

Ítarlegt viðtal er við Önnu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert