Jakarnir kosta Vegagerðina reglulega 200 milljónir

Jakarnir sem brotna úr jöklinum stöðvast á hraðahindrunum við útfallið …
Jakarnir sem brotna úr jöklinum stöðvast á hraðahindrunum við útfallið og bráðna þar niður þannig að þeir eyðileggi ekki brúna þegar þeir fara undir hana. mbl.is

Ísjakarnir sem hægt er að fylgjast með á Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi eru tilkomumikil sjón fyrir alla þá sem þar eiga leið um, enda hefur staðurinn orðið einn af vinsælustu ferðamannastöðum landsins. Stundum fá gestir að sjá kraftana þegar ísinn brotnar af jöklinum, eða þegar jakarnir hvolfast á lóninu með tilheyrandi braki og hávaða.

Þetta sjónarspil er þó ekki með öllu ókeypis og kemur það ágætlega í ljós í fjárhag Vegagerðarinnar, sem þarf reglulega að verja hundruð milljóna í fyrirbyggjandi aðgerðir og lagfæringar til að hægt sé að koma í veg fyrir skemmdir á brúnni yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi.

Á framkvæmdaáætlun hjá Vegagerðinni í ár eru rofvarnir við Jökulsána upp á samtals um 200 milljónir. Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, segir í samtali við mbl.is að þetta séu framkvæmdir sem fara þurfi í á 2-3 ára fresti.

Gríðarlegir kraftar eru að verkum á Jökulsárlóni, en þeir kraftar …
Gríðarlegir kraftar eru að verkum á Jökulsárlóni, en þeir kraftar koma líka fram í bókhaldi Vegagerðarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hraðahindranir settar í ána

„Þetta eru ansi krefjandi aðstæður sem erfitt er að eiga við með öðrum hætti,“ segir Óskar og lýsir svo nánar hvað felst í þessum aðgerðum. „Ofan í árfarveginum eru kantar sitt hvoru megin við, en svo eru settar hraðahindranir út í ána – stór og mikil grjót – þannig að jakarnir sem hafa hrunið af jöklinum og eru að koma þeir stoppa þar og bráðna. Annars ættum við á hættu að þeir fari niður árfarveginn og lendi á brúnni,“ segir hann.

Spurður hvort að það sé þá í raun Vegagerðinni og þessum aðgerðum að þakka að hægt sé að bjóða upp á þessa náttúrusýningu hlær Óskar og segir svo glottandi: „já það má eiginlega segja það.“

Við útfallið eru gríðarlega miklir kraftar og Óskar segir að jakarnir skelli á hraðahindrunum og köntunum. Það veldur því að jakarnir hafa á 2-3 ára fresti tekið hraðahindrunina í burtu og laskað hliðarnar. „Þetta er um 200 milljóna framkvæmd á 2-3 ára fresti,“ segir Óskar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert