Vilja koma í veg fyrir byltuvítahring

Byltur eru algengustu atvik hjá sjúklingum sem liggja á sjúkrahúsum.
Byltur eru algengustu atvik hjá sjúklingum sem liggja á sjúkrahúsum. mbl.is/Jón Pétur

Elfa Þöll Grétarsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun á Landspítala, segir átaksverkefni byltuvarna á Landspítala til þess að fyrirbyggja byltur vera fyrst og fremst til þess að bæta lífsgæði einstaklinga og draga úr þjáningu en auk þess hefur það líka bein áhrif á legulengd. 

„Byltur eru algengustu atvik hjá sjúklingum sem liggja á sjúkrahúsum og eldra fólk er í mestri hættu á að detta. Ástæða fyrir byltum getur verið margs konar, svo sem blóðþrýstingsfall, blóðleysi, þurrkur og sýkingar. Markmið verkefnis um byltuvarnir er að fækka byltum til að fólki farnist betur. Það eru margir sem detta heima hjá sér og er það mjög algeng ástæða þess að fólk leitar á bráðamóttökuna,“ segir Elfa. 

Mælanlegur árangur náðst

Hún segir að góðan mælanlegur árangur hafa náðst þar sem verklagið hefur verið innleitt. Í nýútkomnu gæðaskjali er gátlisti til að auðvelda starfsfólki deilda að draga úr byltuhættu. Þar er m.a. farið yfir nærumhverfi sjúklings en það er eitt af mörgum verkfærum til að fækka byltum. Auk þess að fækka byltum segir Elfa að það þurfi að þjálfa fólk og styrkja, kenna þeim æfingar og aðferðir til að auka öryggi þeirra.

„Það er mjög vond tilfinning að detta og vera ósjálfbjarga. Við það skapast oft vítahringur, fólk dettur og þá verður það hræddara við það að hreyfa sig sem veldur því að vöðvarnir rýrna. Þá verður fólk ennþá óstöðugra á fótum og í ennþá meiri byltuhættu,“ segir Elfa.

Byltuhættan meiri á sjúkrahúsi en heima

Elfa bendir á að byltuhættan sé enn meiri á sjúkrahúsi en í heimahúsi þar sem fólk þekkir hvern krók og kima. 

„Aðstandendur átta sig ekki alltaf á að fólk er oft í meiri byltuhættu þegar það er komið til okkar inn á spítalann heldur en það er heima hjá sér. Á spítalanum eru vegalengdir mun lengri en heima fyrir þar sem stutt er á milli,“ segir Elfa.

Á byltuvarnarsíðu Landspítala er að m.a. finna kennslumyndbönd með æfingum með leiðsögn sjúkraþjálfara sem við hvetjum alla til að kynna sér og nýta til að styrkja sig. Sérstakega getur það verið gagnlegt fyrir þá sem hafa dottið eða eru hræddir við að detta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert