Leggja þétt net yfir vegina

Á Austurlandi fyrir árslok 2026 en þar þarf m.a. að …
Á Austurlandi fyrir árslok 2026 en þar þarf m.a. að setja upp nýja senda á 15-16 stöðum. Ljósmynd/Aðalsteinn Jónsson

Fyrir dyrum standa umfangsmiklar framkvæmdir á allra næstu árum við að byggja upp háhraðafarnetsþjónustu á stofnvegum landsins og á helstu hálendisvegum.

Í drögum að verkáætlun vinnuhóps fjarskiptafyrirtækja til Fjarskiptastofu kemur fram að mögulega verði unnt að ljúka slíkri uppbyggingu á Vesturlandi og á Norðurlandi fyrir árslok 2025.

Á Austurlandi fyrir árslok 2026 en þar þarf m.a. að setja upp nýja senda á 15-16 stöðum. Einnig sé unnt að ljúka við að setja upp farnetsþjónustu á vegum á Vestfjörðum frá botni Hvammsfjarðar að botni Húnaflóa fyrir árslok 2027.

Áætlað er að heildarkostnaður við uppbyggingu og rekstur á slitlausu farneti á stofnvegum yfir 20 ára tímabil verði um 3,8 milljarðar. Segir í drögum hópsins að um verði að ræða kostnaðarsamar aðgerðir ef uppfylla eigi kröfur Fjarskiptastofu um mikla dekkun og mikinn niðurhalshraða í farnetinu á vegum og því sé æskilegt að reynt verði að uppfylla þær á sem hagstæðastan hátt.

„Dekkun á vegum á hálendinu er mjög dýr og væri skynsamlegt að minnka kröfur um dekkun niður í t.d. 85% en með því mætti lækka kostnað verulega,“ segir í drögum vinnuhópsins, en kostnaður við þá uppbyggingu og rekstur hefur verið áætlaður 1,8 milljarðar. Uppsetning háhraðafarnets á Sprengisandi yrði mikil og erfið framkvæmd, en hópurinn telur unnt að ljúka því verki fyrir lok árs 2030.

Komið er að endapunkti á löngu undirbúningsferli við endurnýjun tíðniheimilda fyrir farnetin að sögn Hrafnkels V. Gíslasonar, forstjóra Fjarskiptastofu.

Ein meginkvöðin sem gerð verði til fjarskiptafélaganna sé að koma upp slitlausri þjónustu fyrir háhraðafarnet á þjóðvegum. Félögin geti unnið saman að því að uppfylla þessar kröfur gegn því að fá aðgang að tíðniheimildunum. Hann segir höfuðáherslu lagða á að ljúka við uppbygginguna á Vestfjörðum og á Austurlandi og stoppa upp í götin á vegum þar sem nú eru eyður.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert