Andlát: Auður Þorbergsdóttir

Auður Þorbergsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari.
Auður Þorbergsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari. Ljósmynd/Aðsend

Auður Þorbergsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari, lést 26. janúar sl. á líknardeild Landspítala í Kópavogi, 89 ára að aldri.

Auður fæddist í Reykjavík 20. apríl 1933. Foreldrar hennar voru Guðrún Símonardóttir Bech húsmóðir og Þorbergur Friðriksson stýrimaður.

Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1953 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1958. Hún fékk leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi tveimur árum síðar.

Auður starfaði sem fulltrúi á lögmannsstofu Gunnars A. Pálssonar 1958-1959 og var starfsmaður á skrifstofu Félags stóreignaskattsgjaldenda 1959-1960. Hún var lögfræðingur veðdeildar Landsbanka Íslands 1960-1963 og fulltrúi yfirborgardómara við Borgardómaraembættið í Reykjavík frá 1963 til 1972 þegar hún var skipuð borgardómari fyrst kvenna. Hún sat í því embætti til ársins 1992 er hún var skipuð héraðsdómari í Reykjavík og gegndi því embætti til ársins 2002.

Auður sat í stjórn Íslandsdeildar norrænu lögfræðingamótanna 1972-1981 og var formaður siðanefndar Læknafélags Íslands 1978-1990. Hún var varaforseti Félagsdóms 1989-1992 og forseti dómsins 1992 til 1998. Þá sat hún nokkrum sinnum sem varadómari í Hæstarétti. Fram kemur á vef Kvennasögusafnsins, að Auður hafi frá árinu 1963 framkvæmt hjónavígslur og muni hafa verið fyrsta konan til þess á Íslandi.

Eiginmaður Auðar var Hannes K. Davíðsson, arkitekt, hann lést árið 1995. Börn þeirra eru Kristinn Tanni og Guðrún Þorbjörg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert