12 árekstrar á tveimur tímum

Lögreglan á vettvangi í dag.
Lögreglan á vettvangi í dag. Ljósmynd/Aðsend

Mikið varð um árekstra af völdum hálku á höfuðborgarsvæðinu í dag og fram á kvöld. Á tveimur klukkustundum, á milli klukkan 16.48 og 18.49, sinnti lögreglan 12 útköllum vegna árekstra í umdæminu.

Tilkynnt var um 5-6 bíla árekstur á Kringlumýrarbraut við Bústaðaveg þegar klukkunni vantaði 12 mínútur í 17 í dag. Ástæðan var ónóg aðgæsla við akstur en mikil hálka var á vettvangi, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Á slaginu 17 var tilkynnt um bílveltu á Hafnarfjarðarvegi við Arnarnesveg. Engin slys voru á fólki. Korteri seinna var ekið á hús á Hverfisgötu í Reykjavík. Tjónavaldur ók af vettvangi en skemmdir urðu á bílskúrshurð.

Fjögur mál á fjórum mínútum

Klukkan 17.21 varð eignartjón á Malarhöfða þar sem tvö ökutæki komu við sögu. Tveimur mínútum síðar var bifreið ekið aftan á aðra bifreið á Vesturlandsvegi við Höfðabakka. Einn var þar fluttur á slysadeild.

Karlmaður var handtekinn í Vogahverfinu klukkan 17.24 eftir að hafa ekið bifreið undir áhrifum fíkniefna. Var hann laus að sýnatöku lokinni.

Klukkan 17.25 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni vegna hálku og hafnaði bifreið á vegriði á Reykjanesbraut við Staldrið en engin meiðsli urðu á fólki.

Einn ökumaður í tveimur árekstrum

Árekstur varð á Höfðabakka á móts við Árbæjarsafn um 17.36 en bifreið hafði verið ekið á vegrið. Bifreið var ekið á vegrið þremur mínútum seinna á Hafnarfjarðarvegi við Kópavogslæk.

Klukkan 17.46 var lögreglu tilkynnt um umferðarslys á Sæbraut við Kringlumýrarbraut. Ökumaður var grunaður um að keyra undir áhrifum vímuefna.

Stuttu áður hafði sami ökumaður ekið á aðra bifreið en af þeim vettvangi flúði ökumaður. Ökumaður gistir fangageymslu vegna málsins og rætt verður við hann á morgun.

Rétt fyrir klukkan 18 var bifreið ekið á umferðarskilti á Hafnarfjarðarvegi eftir að ökumaður hafði misst stjórn á bifreið sinni.

Klukkan 18.41 var bifreið ekið á vegrið á Hafnarfjarðarvegi við Hamraborg sem hafnaði svo utanvegar. Klukkan 18.49 var tilkynnt um umferðarslys á Fjallkonuvegi þar sem eignatjón.

mbl.is