„Augljóst að það er eitthvað óeðlilegt í gangi“

Auglýsingin var birt á Instagram fyrir skömmu en hefur nú …
Auglýsingin var birt á Instagram fyrir skömmu en hefur nú verið fjarlægð. mbl.is

Ferðaskrifstofa í Venesúela auglýsir Ísland sem frábæran áfangastað þar sem boðið sé upp á ótrúleg réttindi. Menntakerfi og félagslegt kerfi séu fyrsta flokks og lágmarkslaun frá 500 þúsund upp í rúmlega 800 þúsund krónur. Þingmaður lítur málið alvarlegum augum.

Auglýsing ferðaskrifstofunnar Air Viajes var birt á Instagram fyrir skömmu en hefur nú verið fjarlægð. Ísland er þar kynnt sem norræn eyja sem sé þekkt fyrir stórbrotið landslag.

Bent er á að ótrúleg réttindi fylgi því að ferðast með fjölskylduna til landsins, auk þess sem vikulegur vasapeningur sé í boði meðan á dvöl stendur. Þá er tekið fram að við komu til landsins muni ríkið veita viðkomandi alla þá grunnmenntun sem á þarf að halda.

Leiti til landsins af efnahagslegum ástæðum

Birgir Þórarinsson, þingmaður og nefndarmaður í allsherjar- og menntamálanefnd, segir málið alvarlegt.

„Ég hef haft efasemdir um það að sá mikli fjöldi flóttamanna sem er að koma frá Venesúela sé í raun flóttamenn í skilningi laganna. Ég tel að það séu vísbendingar um það að fólkið sé að leita hingað af efnahagslegum ástæðum, vegna bágborinna lífskjara í sínu heimalandi,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.

Bendir hann á að síðasta ári hafi komið um 1.200 manns til landsins frá Venesúela, samanborið við til dæmis um 80 manns frá Venesúela til Noregs.

„Það er klárlega eitthvað hér sem er að laða fólk til landsins umfram til dæmis hin norrænu löndin. Þessi auglýsing staðfestir að mínu mati að það virðist vera sem svo, ef rétt reynist vera, að það sé ákveðinn iðnaður í Venesúela að hvetja fólk til að koma til Íslands.“

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi

Fleiri sótt um vernd frá Venesúela en Úkraínu

Birgir bendir á að áður en málið kom upp hafi hann óskað eftir því að kærunefnd útlendingamála kæmi fyrir allsherjar- og menntamálanefnd til að ræða fjölda flóttamanna frá Venesúela á Íslandi, sem hann segir óeðlilegan.

„Ég vona að það verði fljótlega og þá er þessi auglýsing enn frekar tilefni til þess að ræða við nefndina.“

Hann tekur fram að flóttafólki frá Venesúela sé hér veitt fjögurra ára viðbótarvernd, á meðan að flóttafólk frá Úkraínu fái vernd í eitt ár.

„Síðastliðna mánuði hafa fleiri sótt um vernd hér á landi frá Venesúela heldur en Úkraínu. Þannig að það er augljóst að það er eitthvað óeðlilegt í gangi sem þarf að fara vandlega yfir og taka á því ef rétt reynist að hér sé hreinlega um misnotkun á kerfinu að ræða.

Ég var búinn að ræða þetta við kollega mína í flóttamannanefnd Evrópuráðsins, að mér fyndist vera óeðlilega mikill fjöldi flóttamanna hér frá Venesúela miðað við önnur lönd og mín samtöl við þá staðfestu það að hér væri eitthvað óeðlilegt í gangi sem þyrfti að fara nánar yfir,“ segir Birgir, en hann situr í nefndinni fyrir Íslands hönd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert