Loka 1.000 hótelherbergjum

Fyrstu fjórum hótelunum var skellt í lás í gær en …
Fyrstu fjórum hótelunum var skellt í lás í gær en þau eru í hópi þeirra sjö sem fyrstu verkfallsaðgerðirnar beindust gegn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er ótrúleg staða að standa frammi fyrir. Við erum nýbúin að opna hótelin eftir tveggja ára lokun vegna heimsfaraldurs og að það sé farið á okkur aftur er þyngra en tárum taki,“ segir Kristófer Oliversson, formaður FHGFyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, í samtali við Morgunblaðið.

Aðilar í hótel- og gistiþjónustu á Íslandi eru uggandi yfir stöðunni sem við þeim blasir vegna yfirstandandi verkfalla félagsfólks Eflingar sem og yfirvofandi frekari verkfallsaðgerða.

Fyrstu fjórum hótelunum var skellt í lás í gær en þau eru í hópi þeirra sjö sem fyrstu verkfallsaðgerðirnar beindust gegn. Meðal þeirra eru Hotel Reykjavík Saga og Hotel Reykjavík Grand en samtals bjóða þau yfir 400 herbergi.

„Það er aðdáunarvert hvað stjórnendur þessara hótela hafa haldið út lengi en reyna á að halda hinum þremur opnum áfram,“ segir Kristófer.

Kristófer Oliversson, eigandi Center Hótels og formaður FHG.
Kristófer Oliversson, eigandi Center Hótels og formaður FHG. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fólk verði á götunni

Í dag eru tvær vikur síðan fyrstu verkfallsaðgerðirnar hófust. Samkvæmt tilkynningu frá Ferðamálastofu hefur verið ákveðið að loka tveimur hótelum til viðbótar á morgun og einu á laugardag. Þetta eru Berjaya Reykjavik Natura Hotel, Hilton Reykjavik Nordica og Berjaya Reykjavik Marina Hotel en samtals bjóða hótelin þrjú yfir 600 herbergi. Í gærmorgun var opnað fyrir neyðarsíma fyrir hótelgesti sem kunna að þurfa aðstoð við endurbókanir og annað þess háttar.

„Það mun koma til þess að fólk verði á götunni þegar líður á vikuna. Það er sú staða sem Ferðamálastofa er að reyna að mæta.“

Kristófer segir að opnun fjöldahjálparmiðstöðvar hljóti að vera til skoðunar því ekki sé auðvelt að stöðva för gestanna. Þá segir hann ekki fyrirséð hvernig koma eigi stórum hópi fólks á milli staða.

„Stóru bókunarvélarnar gefa okkur ekki upplýsingar þannig að við getum haft beint samband við gestina. Þær halda þeim fyrir sig til að geta selt gestunum frekari þjónustu. Þannig er óvíst að hægt sé að láta gesti vita af lokunum.“

Allt félagsfólk Eflingar sem starfar á hótelum og gistihúsum leggur að óbreyttu niður störf á hádegi á þriðjudag en Kristófer segir engin áform uppi að svo stöddu um lokanir á hótelum sem verða fyrir áhrifum af þeim aðgerðum.

„Við vonumst auðvitað til þess að kjaradeilan leysist,“ segir Kristófer Oliversson, formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert