Dældi fyrir tæpar fjórar milljónir á plasttanka

Flutningabílstjóri virðist hafa dælt tólf þúsund lítrum af dísilolíu af …
Flutningabílstjóri virðist hafa dælt tólf þúsund lítrum af dísilolíu af tveimur eldsneytisstöðvum á plasttanka. Ljósmynd/Skjáskot TikTok

Mynd­band sem birt var á samfélagsmiðlum í síðustu viku hefur gengið sem eldur í sinu um netheima. Þar má sjá flutningabílstjóra sem virðist vera að fylla risastóra plasttanka, svokallaða bamba, af dísliolíu.

Fyrstu fregnir hermdu að um hafi verið að ræða rúma fjögur þúsund lítra en svo virðist sem magnið hafi verið enn meira.

Tólf þúsund lítrar

„Mér sýndist hann á myndskeiðinu vera með 12 bamba á bílnum og hver bambi er þúsund lítrar. Við erum búnir að heyra að hann hafi fyrst farið á Olís-stöð þarna í nágrenninu og nærri tæmt hana áður en hann færði sig yfir til Orkunnar og hélt áfram að dæla,“ segir Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri Skeljungs.

Miðað við frásögn Þórðar var um að ræða um tólf þúsund lítra af dísilolíu. Tólf þúsund lítrar af dísilolíu á lægsta sjálfsafgreiðsluverði Orkunnar í dag kosta rúmar 3,7 milljónir króna.

Kolólöglegt og stórhættulegt

Þórður segir að forsvarsmenn Skeljungs viti ekki deili á dísilolíu-hamstraranum mikla og því hafi fyrirtækið ekki getað tilkynnt uppátækið.

Hann segir athæfið auðvitað bæði kolólöglegt og stórhættulegt.

„Það er engin tilviljun að það þurfi sér réttindi til að keyra olíubíl og sérútbúna bíla til þess,“ segir Þórður.

Þá segist Þórður hafa séð ljósmynd sem tekin var í síðustu viku af opnu skotti á venjulegum station-bíl þar sem voru sex eða átta plastpokar pullir af eldsneyti.

Þórður segir ýmislegt hafa gengið á en sem betur fer hafi hann hvorki heyrt af slysum á fólki né mengunarslysum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert