Ætla ekki að dreifa bréfum í póstbox í vor

Íslandspóstur hefur sent út tilkynningu.
Íslandspóstur hefur sent út tilkynningu. mbl.is/Hari

Forstjóri Íslandspósts segir ekki rétt að Pósturinn stefn­i að því að dreif­ing al­mennra bréfa í gegn­um póst­box geti haf­ist nú á vor­mánuðum eins og kom fram í Morgunblaðinu í dag. Þar var vísað í umsögn Íslandspósts um frumvarp um póstdreifingu, sem nú er til meðferðar á Alþingi. 

Í umsögninni segir orðrétt:  „Undirbúningur að verkefninu er í fullum gangi og er stefnt að því að bréfadreifing í gegnum póstbox geti hafist á vormánuðum 2023."

„Við erum ekki að fara að dreifa bréfum almennt í póstbox í vor, langt í frá. Þó svo að innlendar bréfasendingar hafi dregist saman um tæp 80% þá erum við ekki með nógu mörg póstbox til þess að geta dreift öllum bréfum í þau,“ er haft eftir forstjóranum Þórhildi Ólöfu Helgadóttur í tilkynningu, þar sem óskað er eftir leiðréttingu á frétt blaðsins.

Mun betri lausn en bréfakassasamstæður

„Við settum upp póstbox á Kópaskeri síðasta haust sem hefur afkastagetu til að afhenda bæði pakka og bréf á staðnum. Við erum hins vegar ekki byrjuð á þessu enn þá en erum að undirbúa þessa tilraun. Bréfum er og verður dreift áfram tvisvar í viku og við ítrekum að aðeins er um tilraunaverkefni að ræða,“ segir Þórhildur enn fremur.

„Ef sú tilraun gengur vel þá er ekki ólíklegt að þessi lausn verði innleidd á fleiri smærri þéttbýlisstaði. Pósturinn telur þessa lausn mun betri en að setja upp bréfakassasamstæður, eins og lagt er til í frumvarpi innviðaráðherra um póstþjónustu. Fyrst og fremst vegna þess að markaður fyrir bréfasendingar er á hraðri niðurleið.

Mun skynsamlegra sé að sameina dreifikerfi bréfa og pakka í þessum minni þéttbýliskjörnum með því að nýta póstboxin sem alhliða dreifileið. En svona verkefni taka tíma og við erum enn á byrjunarreit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert