Fékk starf með skilyrði um að taka dótturina líka

Geiri, Annabella og dæturnar. Frá vinstri: Sóley Ósk Sigurgeirsdóttir, Sigríður …
Geiri, Annabella og dæturnar. Frá vinstri: Sóley Ósk Sigurgeirsdóttir, Sigríður Dóra Sigurgeirsdóttir, Annabella Albertsdóttir, Sigurgeir Óskar Erlendsson og Rakel Dögg Sigurgeirsdóttir.

„Þetta er orðið ágætt. Ég held að ég hafi alveg skilað mínu,“ segir Sigurgeir Óskar Erlendsson, bakarameistari í Geirabakaríi í Borgarnesi, sem er að láta af störfum eftir 35 ára rekstur bakarísins.  

„Núna get ég kannski spilað meira golf, verið meira í bústaðnum eða dvalið meira á Siglufirði,“ segir Sigurgeir sem verður 69 ára á árinu.

Eftir svo langt starf er Sigurgeir því flestum bæjarbúum kunnur en við rekstrinum tekur Sigurþór Kristjánsson sem áður var í læri hjá Geira og hefur starfað í bakaríinu í lengri tíma.  

Ætlaði að stoppa í 1 ár 

„Þetta eru töluverð tímamót þar sem maður er búinn að vera í þessu í allan þennan tíma. Ég flutti hingað árið 1975 en hafði verið fyrir það að vinna í bakaríi á Siglufirði í 2-3 ár. Ég ætlaði stoppa í Borgarnesi í 1 ár en er hér enn,“ segir Sigurgeir 

Hann segir að upphaf rekstursins megi rekja til gamals lærimeistara og Siglfirðings Alberts Hólm Þorkelssonar sem um langa hríð rak bakarí í Borganesi. „Ég var á Siglufirði í 2-3 ár og svo lokaði bakaríinu þar. Ég þekkti svo Albert og vissi að hann væri að reka bakarí á í Borgarnesi. Hann sagði að ég myndi ekki fá vinnu nema með því að taka dótturina líka. Eða það er í það minnsta það sem ég hef sagt konunni á seinni árum,“ segir Sigurgeir og hlær en Albert varð, eins og frásögnin ber með sér, síðar tengdafaðir hans.  

Hann starfaði hjá Alberti um nokkur skeið áður en hann hóf sjálfstæðan rekstur árið 1988 með stofnun Geirabakarís. 

Heimsfrægt bakarí 

Sigurgeir segir að fólk hafi tekið vel í það að hann sé að hætta. „Þetta eru bein skipti. Fólk þekkir Sigurþór Kristjánsson þar sem hann hefur verið í bakaríinu lengi. Hann og konan hans (Þórdís Arnardóttir) taka við en ég og konan mín (Annabella Albertsdóttir) stígum til hliðar.“ 

Að líkindum er Geirabakarí með frægari bakaríum á Íslandi með tilliti til heimsfrægðar þar sem því brá fyrir í kvikmynd Bens Stiller, The secret life of Walter Mitty. Geiri segir að mörgum útlendingum hafi þótt það merkilegt þegar það sá mynd af bakaríinu úr myndinni. „Ég er enn með myndir uppi frá þessum tíma. Útlendingarnir hafa gaman að þessu," segir Sigurgeir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert