Andlát: Gunnhildur Óskarsdóttir

Gunnhildur Óskarsdóttir.
Gunnhildur Óskarsdóttir. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Gunnhildur Óskarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og formaður styrktarfélagsins Göngum saman, lést á heimili sínu í Reykjavík hinn 17. mars 2023.

Gunnhildur fæddist 25. október 1959, dóttir hjónanna Unnar Agnarsdóttur og Óskars H. Gunnarssonar. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð jólin 1978. Hún söng altrödd með Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og var ein af stofnendum Hamrahlíðarkórsins.

Gunnhildur ákvað níu ára gömul að verða kennari þegar hún yrði stór og við það stóð hún. Hún lauk B.Ed.-prófi við Kennaraháskóla Íslands árið 1982, M.Ed.-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskólann í Aberdeen í Skotlandi árið 1989 og doktorsprófi við Háskóla Íslands árið 2006. Hún kenndi í Hvassaleitiskóla í þrjú ár en síðan í Æfingaskóla Kennaraháskólans, síðar Háteigsskóla, í níu ár. Hún varð æfingakennari við Kennaraháskólann 1989, lektor við Kennaraháskólann, síðar Menntavísindasvið Háskóla Íslands, árið 1998, dósent árið 2006 og prófessor 2022.

Gunnhildur skrifaði námsefni fyrir Námsgagnastofnun, auk þess skrifaði hún fjölda greina og bókarkafla í ýmis kennslufræðileg tímarit. Gunnhildur var meðlimur í Kappa-deild Delta, Kappa, Gamma (Konur í fræðistörfum).

Árið 1998 greindist Gunnhildur með brjóstakrabbamein, þá 38 ára gömul. Hún lifði farsællega og af æðruleysi með sjúkdómnum til hinstu stundar. Árið 2007 stofnaði hún ásamt vinkonum sínum styrktarfélagið Göngum saman, sem hefur styrkt íslenskar grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini um 120 milljónir frá stofnun þess. Gunnhildur var formaður félagsins frá upphafi.

Á nýársdag 2017 var hún sæmd fálkaorðunni fyrir störf í þágu brjóstakrabbameinsrannsókna á Íslandi og fyrir að hvetja til heilbrigðra lífshátta.

Gunnhildur kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum, Arnóri Þ. Sigfússyni fuglafræðingi, í MH. Þau eignuðust þrjú börn, Óskar Örn, Ragnhildi Ernu og Snorra Má. Gunnhildur og Arnór eiga eitt barnabarn, Magnús Óskarsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert