Andlátið líklega ekki „af mannavöldum“

Grundarstígur í Þingholtunum.
Grundarstígur í Þingholtunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögregla telur ólíklegt að andlát það sem greint var frá í morgun hafi borið að með saknæmum hætti. 

Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

Ekki enn búið að yfirheyra alla

„Það virðist vera ólíklegt að þetta andlát sé af mannavöldum,“ segir Grímur sem tekur þó fram að frekari rannsókn á atvikum eigi eftir að fara fram. Enn eigi eftir að yfirheyra fleiri.

Fengu upphaflega hávaðaútkall

Að sögn Gríms barst lögreglu útkall vegna hávaða úr íbúð í Þingholti í morgun en hann gat ekki staðfest hvort það hafi verið eina útkallið frá svæðinu. 

Þegar lög­reglu bar að garði reynd­ust þrír menn vera í íbúðinni. Einn þeirra var meðvit­und­ar­laus og með litl­um lífs­mörk­um. Grímur kvaðst ekki geta greint frá því hvort maðurinn hefði verið með einhverja áverka þegar lögregla mætti á vettvang.

Grímur segir skýrslutöku enn standa yfir og því lítið sem lögregla geti greint frá að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert