Brotist inn í íbúð og innbúið skemmt

Vellirnir í Hafnarfirði.
Vellirnir í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Húsráðandi íbúðar á Völlunum í Hafnarfirði óskaði eftir aðstoð lögreglunnar. Þegar hann kom að heimili sínu var búið að brjótast þar inn og skemma mikið af innbúinu.

Ekkert kemur meira fram um málið í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til kl. 5 í morgun.

Grunaður um líkamsárás

Tilkynnt var um líkamsárás í hverfi 105 í Reykjavík. Einn var handtekinn, grunaður um árásina og vistaður í fangaklefa.

Óskað var eftir aðstoð lögreglu á veitingastað í hverfi 201 í Kópavogi vegna einstaklings sem var til vandræða inni á staðnum.

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einnig var brotist inn í fyrirtæki í hverfi 109 í Breiðholti.

Tilkynnt var um þjófnað úr verslun í Grafarvogi. Sá grunaði var látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Bílvelta í Árbæ

Þá var tilkynnt um umferðaróhapp í Árbænum. Samkvæmt þeim sem tilkynnti um óhappið var um bílveltu að ræða. Ekkert kemur frekar fram um slysið.

Tilkynnt var um innbrot í bifreið í miðbæ Kópavogs.

Sex bifreiðir voru jafnframt stöðvaðar þar sem ökumenn eru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert