Davíð og Eva bjóða ókeypis gistingu á Tenerife

Davíð og Eva Ósk bjóða fjölskyldu að dvelja í húsi …
Davíð og Eva Ósk bjóða fjölskyldu að dvelja í húsi sínu, á Tenerife, að kostnaðarlausu. Ljósmynd/Aðsend

„Viðkomandi er að berjast við ólæknandi krabbamein,“ segir Davíð Kristinsson en hann og eiginkona hans, Eva Ósk Elíasardóttir, sem leigja út hús á Tenerife, auglýstu fyrir skömmu eftir fjölskyldu með langveikt barn eða aðila sem er að berjast við krabbamein, með það fyrir augum að bjóða viðkomandi ókeypis gistingu.

„Það hefur gengið vel hjá okkur síðustu þrjú árin en við keyptum húsið í febrúar árið 2020. Okkar hugmynd var að einhver gæti nýtt þennan lausa tíma til góðs en við fengum miklu meiri viðbrögð en við áttum von á. Við fengum um 30 umsóknir og svo var fólk að benda okkur á fjölskyldur.“

Hjónin Davíð Kristinsson og Eva Ósk Elíasardóttir fluttust búferlum frá …
Hjónin Davíð Kristinsson og Eva Ósk Elíasardóttir fluttust búferlum frá Akureyri til eldfjallaeyjunnar, Tenerife árið 2020. Ljósmynd/Aðsend

Koma í næsta mánuði

Davíð segir þann sem varð fyrir valinu hafa haft samband strax og þar sem hann kannaðist við viðkomandi og þekkti til aðstæðna þá hafi hann farið ofarlega í bunkann.

Fjölskyldan sé búsett á Akureyri en viðkomandi muni taka með sér móður sína, systur sína og börn að sögn Davíðs. 

„Þau eru að koma í næsta mánuði og munu dvelja í húsinu í níu nætur.“

Aðspurður segist Davíð frekar eiga von á því að endurtaka þetta framtak á einhverjum tímapunkti:

„Við viljum endilega hafa einhvern í húsinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert